139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög stutt síðan, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á, að við samþykktum hér með 63 atkvæðum að styrkja stöðu þingsins. Það stóð upp úr hverjum einasta manni í ræðum að við vildum vanda betur til verka og læra af því sem miður hefur farið. Síðan hefur ástandið aldrei verið verra, ég fullyrði það. Rétt áðan hlustuðum við á að hæstv. ráðherra var spurður þeirrar spurningar: Ertu með lögfræðiálit eða ekki, já eða nei? Hann svaraði því ekki og hann hefur aldrei svarað þessari spurningu þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt með öllum mögulegum og ómögulegum leiðum að fá þetta svar. Þau svör sem við fáum frá hæstv. ráðherrum, ekki bara þessum hæstv. ráðherra heldur öðrum, er fullkominn útúrsnúningur og allt reynt til að tefja þetta.

Virðulegi forseti. Hvernig ætlum við að vinna (Forseti hringir.) þessi mál eins og við lögðum upp með ef við fáum ekki upplýsingar, ef við fáum ekki þau svör sem okkur ber að fá. Virðulegi forseti. Við þurfum að ræða þetta.