139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði tilraun til þess að reyna að snúa þessari umræðu á haus og láta líta þannig út að hér væri verið að deila um kvótakerfið. Umræðan snýst ekki um það, hún snýst um það að hvort hæstv. ráðherra hafi orðið ber að því að brjóta gegn lögum, gegn gildandi lögum í landinu. Rökstudd álit tveggja hæstaréttarlögmanna benda til þess að svo sé. Þetta er kjarni málsins. Það segir auðvitað allt um málatilbúnað hæstv. ráðherra að í allri þessari umræðu hefur ekki einn einasti þingmaður stjórnarliðsins eða einn einasti hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni séð ástæðu til þess að reyna að verja hæstv. sjávarútvegsráðherra. Svo aumur er málstaður hans.

Ég vil ítreka það við hæstv. forseta að þetta mál verði tekið upp í forsætisnefnd, (Forseti hringir.) um svör hæstv. ráðherra við fyrirspurnum okkar þingmanna, það hefur ekki verið gert. Verði það ekki gert hljótum við að (Forseti hringir.) reyna að beita þingsköpum Alþingis til að eiga orðastað við forseta sjálfan um þá stöðu sem upp er komin í þinginu gagnvart okkur þingmönnum og þá verði hæstv. forseti til svara hér.