139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil leiðrétta það að ég hafi minni áhuga á samgöngum á suðvesturhorninu en annars staðar á landinu. Ég hef áhuga á samgöngum á landinu öllu og minni á að vegirnir á landsbyggðinni eru líka fyrir okkur sem búum hér á þessu svæði þannig að við höfum að sjálfsögðu landið allt undir þegar við hugum að samgöngubótum.

Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, hlutfallslega hefur framlag til vegabóta á suðvesturhorninu minnkað á tveimur síðustu árum. Eins og hv. þingmaður nefndi var það komið yfir 20%, var 20,5% á árinu 2008. Þá nam stofnkostnaður í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi 4.000.358 þús. kr. en er á þessu ári komið niður í 727 millj. kr. Á fyrra árinu, 2008, var stofnkostnaður fyrir landið allt 21.261 millj. kr. en verður á þessu ári 7.490 millj. kr., þ.e. 9,7% af stofnframkvæmdafé á landinu öllu. Þetta hlutfall hefur vissulega raskast.

Ég sagði að ég hefði skilning á samgöngumálum á landinu öllu en ég hef líka skilning á fjárþurrð ríkissjóðs. Það er nokkuð sem við hljótum öll að horfa til, það sem menn ætluðu sér fyrir fáeinum missirum eða árum er hreinlega ekki gerlegt núna. Það er bara svo. Hv. þingmaður nefndi t.d. Arnarnesveg. Arnarnesvegur var kominn í útboð, nánast frágengið, en í hruninu var horfið frá þeirri framkvæmd. Hún er engu að síður á áætlun fyrir árin 2011–2012 en það er óljóst um framhaldið vegna fjárþurrðar.

Aðrar vegabætur sem hv. þingmaður nefndi eru í öðrum fjármögnunarfarvegi, ef svo má orða það, og þar vísa ég sérstaklega til breikkunar á Vesturlandsvegi. Þar er hugsunin sú að fá fjármagn frá lífeyrissjóðunum og fjármagna framkvæmdina síðan að uppistöðu til með veggjöldum. Þetta fyrirtæki er algerlega í eigu ríkisins og því ekki um einkaframkvæmd að ræða í þeim skilningi sem iðulega hefur verið talað um hana. Þetta er framkvæmd sem yrði algerlega á vegum hins opinbera.

Ég vil nefna að menn rugla oft í þessari umræðu saman einkavæðingu og einkaframkvæmd. Vegagerð á Íslandi er nánast öll í höndum einkaaðila, nánast öll verkefni eru boðin út til fyrirtækja sem síðan framkvæma þau. Deilan á umliðnum árum hefur síðan staðið um hvort það eigi að heimila einkafyrirtækjum yfirráð yfir vegum og að hafa arð af þeim. Því hef ég verið andvígur.

Þetta er sem sagt framkvæmd sem er sett inn í fjármögnun lífeyrissjóðanna og forveri minn í embætti, hv. þm. Kristján Möller, stýrir því verki.

Síðan er spurt sérstaklega um gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar. Þetta er dýr framkvæmd en mjög mikilvæg og menn hafa skoðað ýmsa kosti í þeim efnum. Á undanförnum árum hafa verið settar fram hugmyndir um mislangan stokk og ræðst kostnaðurinn að sjálfsögðu af því hversu langur þessi stokkur yrði. Sú lausn sem lengst nær er stokkur frá Goðatúni að Hraunsholtshæð. Á árinu 2009 fóru menn síðan að endurskoða þessar fyrri tillögur og þá var ákveðið að stytta þennan stokk eitthvað en hafa mislæg gatnamót. Þar var reiknað með að fyrsti áfanginn mundi kosta 1,7 milljarða kr., annar áfangi 4,1 milljarð kr., samtals 5,8 milljarða kr. Þetta þykir mönnum dýr lausn og hafa skoðað hvort hægt sé að grípa til bráðabirgðalausna sem yrðu áþekkar því sem gerist á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Það er framkvæmd sem mundi að mati Vegagerðarinnar kosta á bilinu 300–400 millj. kr. Sannast sagna finnst mér sannfærandi að reyna þá lausn.

Hins vegar hefur þessu verið skotið til skipulagsyfirvalda í bæjarfélögunum sem liggja þarna að og þá er ég að horfa að sjálfsögðu fyrst og fremst til Garðabæjar. Viðbrögðin þaðan hafa verið full efasemda. Umferðarnefnd bæjarins sendi frá sér yfirlýsingu í lok maímánaðar á þessu ári þar sem fram kemur að það eigi að endurskoða þessa hugsun. Þetta var ítrekað af hálfu bæjarráðs í september og síðan skipulagsnefndar einnig og við erum að skoða þær ábendingar sem þarna hafa komið fram. Ég ítreka að það eru litlir fjármunir sem við höfum til ráðstöfunar og miklu minni en við (Forseti hringir.) höfðum fyrr á árum eins og allir þekkja.

Þetta er fyrsta tilraun til að svara hv. þingmanni, ég mun koma nánar að þessum (Forseti hringir.) málum í síðara svari mínu.