139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og brýn ástæða til. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um mikilvægi þeirra framkvæmda sem hún taldi upp í ræðu sinni. Ég vil leyfa mér sem þingmaður Suðvesturkjördæmis og sem íbúi í kjördæminu að ræða um gatnamótin Vífilsstaðavegur/Hafnarfjarðavegur sem öryggismál. Þar er engin lúxusframkvæmd á ferðinni heldur mjög brýnt öryggismál fyrir alla sem fara um þau gatnamót hvern einasta dag allan ársins hring.

Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra tók fram, það er vissulega ekki úr miklum peningum að spila, fjárþurrð kallaði hann það, en hlutfallsvandinn afsakast ekki af því. Það er auðvitað af minna að taka, það segir sig sjálft, en við hljótum hins vegar að ætla að hafa sanngirni í hlutfallinu einnig. Hvers vegna? Ekki bara vegna íbúafjölda eða umferðarþunga, það er vegna öryggismálanna. Samgönguleiðirnar þurfa að sjálfsögðu að vera sem öruggastar, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða úti um landið, á þjóðvegum þess.

Þegar öryggismálin eru lögð til grundvallar mundi ég ætla að forgangsröðunin væri kannski ekki eins erfið og stundum er látið í veðri vaka, alveg burt séð frá því hvar menn standa í kjördæmum en oftast eru samgöngur ræddar hér á hinu háa Alþingi út frá kjördæmahagsmunum, leyfi ég mér að segja. Við eigum að ræða um öryggismálin, við eigum að ræða um mengunina sem verður af samgöngum og hvernig við minnkum hana. Hana minnkum við m.a. með almenningssamgöngum. Ég tek undir hvert orð (Forseti hringir.) með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um þær hér áðan.