139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka góða og þarfa umræðu hér í dag. Mig langar að tala örlítið um annars konar samgöngur en flestir hafa gert, þ.e. hjólreiðar. Ég hef lengi hjólað mikið og á sumum tímum í lífi mínu hef ég treyst nær eingöngu á reiðhjól sem samgöngutæki. Höfuðborgarsvæðið er frábært til hjólreiða og aðstæður allar hafa batnað mjög til muna á síðustu árum. Það eru tvö atriði sem mig langar að vekja máls og athygli á sem verður að ráða bót á hið fyrsta. Hið fyrra varðar reiðhjólastíga á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er oft eins og sveitarfélögin tali ekkert saman, stígar enda jafnvel við bæjarmörkin og menn þurfa að bera hjólin yfir torfærur til að komast yfir á stíg aftur.

Hitt varðar svo hjólaleiðir út úr höfuðborginni. Fyrir nokkrum árum voru settar upp eins konar raufar í vegkanta á öllum helstu umferðaræðum frá höfuðborgarsvæðinu. Þessar raufar skapa mikil óhljóð ef ekið er yfir þær. Þetta er öryggistæki til að vekja ökumenn sem eru kannski að sofna svo þeir keyri ekki út af veginum. Þessar öryggislínur gera það að verkum að það er ekki hægt að hjóla lengur út úr höfuðborginni. Það er ekki hægt að hjóla á þessum raufum.

Mig langar að beina því til ráðherra að gert verði ráð fyrir hjólandi umferð þegar hugað er að samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu og öllum leiðum út af því. Hjólreiðar eru góðar fyrir alla. Þær eru umhverfisvænar. Þær eru heilsubætandi. Við verðum að gera ráð fyrir þeim og skapa þeim rými.

Ég vil líka nota tækifærið og taka undir með Þór Saari — burt með þennan flugvöll — og þeim þingmönnum sem hafa talað hérna fyrir bættum almenningssamgöngum.