139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[12:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka um margt góða og málefnalega umræðu. Ég verð að segja að ég veit ekki í hversu mörgum umræðum um samgöngumál ég hef tekið þátt. Alltaf höfum við undirstrikað mikilvægi þess að efla samgöngur á landinu öllu, ekki síst á landsbyggðinni. Það er einhvern veginn alltaf þannig að þegar við þingmenn höfuðborgarsvæðisins leyfum okkur að tala um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu eigum við að vera mjög þjökuð af einhverju samviskubiti. Það eigum við ekki að gera. Við eigum frekar að fá fólk til að skilja það sem við erum að segja, að samgöngumál höfuborgarsvæðisins eru líka málefni landsbyggðarinnar, alveg eins og það er gagnkvæmt.

Ég þakka velflest svör ráðherra nema það að mér finnst ég ekki skilja hvaða sýn hann hefur á hlutfall varðandi nýframkvæmdir á höfuborgarsvæðinu. Í þessari umræðu hef ég ekki talað um aukningu til samgöngumála, ég er hér eingöngu að tala um hlutfallið, hvernig það dreifist. Mér fannst ég ekki fá afgerandi skoðun hjá hæstv. ráðherra í þá veru hvort hann vilji auka hlutfall nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Það er einfalt svar, já eða nei. Vill hann beita sér fyrir því að höfuðborgarsvæðið fái aftur a.m.k. þessi 20% sem það hafði í nýframkvæmdir í samgöngumálum?

Ég þakka líka ráðherra fyrir að hann hefur í rauninni leiðrétt það sem kom fram í fréttinni hjá Vísi þar sem klárlega var hægt að sjá að hann hefði ekki haft sama skilning á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Ég þakka fyrir að hann hafi þá leiðrétt þennan misskilning.

Ég bendi líka ráðherra á að beita lífeyrissjóðina þrýstingi. Mér finnst ánægjulegt að hann skuli vísa í einkaframkvæmd til þess að bjarga samgöngumálum hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það skipti mjög miklu máli að fá lífeyrissjóðina af fullum krafti í samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Samgönguframkvæmdir hér eru arðbærar eins og við vitum, mjög arðbærar, og ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur (Forseti hringir.) með fulltingi ráðherra að fá lífeyrissjóðina til að fara í þær samgönguframkvæmdir sem eru tilbúnar og bíða nú þegar eftir því að vinnufúsar hendur fái tækifæri til að takast á (Forseti hringir.) við þær mikilvægu framkvæmdir. Nóg er nú af atvinnuleysinu.