139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek að þessar breytingar breyta ekki á neinn hátt rekstrarformi Landsvirkjunar eða þeim umbúnaði sem utan um það fyrirtæki er og hefur verið. Það er sjálfstætt fyrirtæki með stjórn. Því ber að sjálfsögðu að fara að lögum og reglum og virða stefnu stjórnvalda eins og hún er á hverjum tíma og hefur verið frá henni gengið af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar, hvort sem það eru lög um virkjanamál eða náttúruverndarlög eða önnur slík. Ábyrgð ríkisins á lánum hefur leikið lykilhlutverk í sambandi við aðgang Landsvirkjunar að lánsfé. Það er t.d. ekki tilviljun að Landsvirkjun er það fyrirtæki sem eitt hefur farið út á erlendan skuldabréfamarkað og náð þar góðum árangri við okkar erfiðu aðstæður núna. Staða fyrirtækisins er traust og eigandi þess, ríkið, hefur staðið vel við bakið á fyrirtækinu í gegnum erfiðleikatímana. Þannig hefur Landsvirkjun t.d. ekki verið látin greiða arð núna tvö ár í röð á meðan fyrirtækið væri að komast í gegnum mestu ólgusjóina sem bankahrunið og efnahagsáföllin hafa haft í för með sér. Það hefur gengið mjög vel. Staða fyrirtækisins er traust á nýjan leik.

Breytingarnar sem hv. þingmaður benti réttilega á í b-lið 1. gr. eru einmitt til þess að gera stöðu þess bara hliðstæðari því sem almennt gerist. Komi til þeirra hluta sem við vonum að verði aldrei, að beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða annað því um líkt kæmi fram, snýr það að fyrirtækinu eins og bara hverjum öðrum þó að eigandinn í þessu tilviki sé ríkið. Það er gert skýrara með þessum hætti. Staða fyrirtækisins er skilgreind og síðan er gengið frá ríkisábyrgðarþáttunum með þeim hætti að óháður aðili úrskurðar um hvað skuli teljast hæfilegt ábyrgðargjald þannig að það sé greitt með eðlilegum hætti fyrir það (Forseti hringir.) forskot sem fyrirtækið ella hefur í skjóli ríkisábyrgða og ríkisins sem eiganda.