139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í málefni Orkuveitu Reykjavíkur gegnum tíðina, ég þekki ekki jafn vel til þeirra hluta og hv. þingmaður. Ég veit að hann hefur glímt við það talsvert og verið þátttakandi í því. Varðandi fyrirtækið Landsvirkjun á það að sjálfsögðu að vera skýrt í lögum að meginhlutverk þess er þetta miðlæga hlutverk í raforkumálum okkar. Það er langstærsti framleiðandi og heildsöluseljandi á raforku í landinu og afar mikilvægt sem slíkt. Það má segja að það sé svona móðurfélag eða þungamiðjufélag í okkar orkumálum. Það er ánægjulegt að fyrirtækinu hefur vegnað vel og hefur staðið sig vel í að vinna úr sínum málum við erfiðar aðstæður undanfarin tvö ár, að segja má.

Þar stendur yfir mjög spennandi stefnumótunarvinna sem ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér. Fyrirtækið hefur opnað upp starfsemi sína og veitir nú meiri upplýsingar en áður um rekstur sinn, orkuverð og annað í þeim dúr og vinnur að stefnumótun þar sem teiknuð er upp mjög spennandi framtíðarsýn fyrir opnum tjöldum. Síðast á stórum fundi nú á dögunum var þetta kynnt. Fyrirtækið er að móta sér áherslur um að horfa meira á sig sem markaðsfyrirtæki og ná arði út úr núverandi starfsemi frekar en bara sem framkvæmdafyrirtæki. Allt held ég að þetta sé í rétta átt.

Varðandi heimildir fyrirtækisins til að stunda starfsemi sem ekki er þröngt skilgreind starfsemi á orkusviði þá er ég alveg tilbúinn til að fara yfir það. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það á að vera skýrt og skilgreint í lögum, en ég efast um að menn vilji fara alla leið til baka þannig að fyrirtækin geti ekki eftir atvikum stundað áhættuvarnir eða tryggt stöðu sína með slíkum hlutum, enda væntanlega um það sem þetta snýst.

En fyrirtæki af þessu tagi eiga að sjálfsögðu ekki að vera í einhverjum algerlega óskyldum viðskiptum að þarflausu. Ég er algerlega sammála því. Þau eiga að einbeita sér að meginhlutverki sínu (Forseti hringir.) á sviði orkumála.