139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með þessi viðbrögð hjá hæstv. ráðherra. Hann bendir á að Landsvirkjun er sterkt félag og hefur verið íhaldssamt í starfsemi sinni. Það er bara eitthvað sem menn geta ekki séð fyrir, vonandi verðum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna, það koma auðvitað breyttir tímar. Það eru gríðarlegir fjármunir undir. Menn hafa séð að Landsvirkjun getur á tiltölulega skömmum tíma greitt niður skuldir sínar. Þær stóru fjárfestingar sem farið hefur verið í hafa reynst mjög arðbærar eins og hæstv. ráðherra fór yfir. Þær þóttu hins vegar mjög hallærislegar um tíma þegar miklar bólur voru í þjóðfélaginu og menn töldu að gríðarleg tækifæri væru með alla þessa fjármuni að gera eitthvað annað sem væri meira spennandi og meira í ætt við nútímann sem nú er fortíð.

Mér heyrist að ég og hæstv. ráðherra séum sammála um að hlutverk þessara mikilvægu fyrirtækja eigi að vera skýrt. Það er mín skoðun að þau eigi að sinna umhverfisvænni orkuvinnslu og sölu og dreifingu. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að þau stundi áhættuvarnir, það snýst ekki um það. Aðalatriðið er að þau eru með algjöra sérstöðu þessi fyrirtæki og þeir tímar koma örugglega aftur að menn sjái að það gæti verið virkilega spennandi að þau fari í allt milli himins og jarðar eins og gerðist í tilfelli Orkuveitunnar þegar menn ætluðu að græða gríðarlega á gagnaflutningum, fannst alveg stórkostlegt að fara út í sumarbústaðabyggingar í einni af náttúruperlu landsins og fátt var óviðkomandi fyrirtækinu, t.d. risarækjueldi, ljósmyndabanki og ýmislegt annað sem ég er búinn að gleyma — það er svolítið síðan ég hélt þessar ræður, virðulegi forseti, en ég á þær margar og gott ef ég á ekki eitt frumvarp sem gengur út á það að breyta þessu í þá veru sem ég legg hér til. Og mér heyrist að hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra sé sammála því að fara yfir það mál.