139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vék að því að takmarka áhættuþætti í rekstri opinberra aðila. Ég held að það sé mikilvægt að línur séu skýrar á milli opinberrar starfsemi annars vegar og viðskiptastarfsemi hins vegar. Samkrull í slíku hafi oft og iðulega leitt til ófarnaðar og það sé hluti, m.a. af vandamálum sem við sjáum í Íbúðalánasjóði í dag. Hvernig þeir unnu með aðilum á markaði í einhvers konar samkrulli í lánapökkum hefur sannarlega ekki reynst farsælt og valdið miklu tjóni. Mörg slík dæmi má eflaust tína til.

Þá er líka rétt að velta því upp hvort þetta eigi ekki einnig við um stóriðjufjárfestingar. Auðvitað er það svo, vegna þess að hv. þingmaður nefnir til að mynda Orkuveitu Reykjavíkur, að langstærstur hlutinn af 230 milljarða skuldum fyrirtækisins varðar fjárfestingar og fjárfestingarfyrirætlanir í tengslum við orkufreka stóriðju. Við hljótum, þegar við ræðum ríkisábyrgðir, að þurfa að velta því fyrir okkur hvort það væri ekki æskilegast að orkufrekar framkvæmdir fyrir stóriðju hætti að njóta þessara ábyrgða og þurfi einfaldlega að vera þannig uppbyggðar að þær geti staðið undir sér á markaði. Skattgreiðendur eigi ekki að vera í ábyrgðum. Þó að ég sé eindregið þeirrar skoðunar að ríkið og sveitarfélögin eigi að ráða yfir umtalsvert meiri orkuframleiðslugetu en þarfir almennings séu og almenns atvinnulífs. Eigi að þjóna stóriðju að einhverju marki þá held ég að við séum komin þangað að það væri langaffarasælast með verkefnafjármögnun eða því að bjóða út til einkaaðila (Forseti hringir.) frekari orkuvinnslu fyrir stóriðju væri skattgreiðandanum langsamlega hagfelldast.