139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum sem rekja má til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur og fjallað var um í umræðum á undan um breytingar á lögum um Landsvirkjun. Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á fjárhæð ábyrgðargjalds af þeim skuldbindingum sem ríkisábyrgð er á.

Eins og fram hefur komið og er ítarlega rakið í athugasemdum við frumvarp um breyting á lögum um Landsvirkjun, málið sem síðast var á dagskrá, hefur afstaða Eftirlitsstofnunarinnar verið á þá leið að ríkisábyrgðir brjóti í sjálfu sér ekki gegn EES-samningnum. Skilyrði fyrir því að slík ábyrgð teljist ekki ólögmæt er hins vegar að fjárhæð endurgjalds þess sem ríkið tekur á sig, í formi ríkisábyrgðargjalds, endurspegli hag lántakanda af ábyrgðinni. Ríkisábyrgðargjaldið þarf því að nema a.m.k. þeim mismun sem lántakinn hefur haft af því að hafa tekið lán með ríkisábyrgð, í stað þess að hafa tekið lán án ríkisábyrgðar.

Í samræmi við það er í frumvarpi þessu lagt til að ábyrgðargjald vegna ríkisábyrgðar skuli svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur á grunni ríkisábyrgðarinnar í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar.

Mælt er fyrir um að ábyrgðargjaldið skuli ákvarðað á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili.

Eins og fram kom í ræðu minni um frumvarp til breytinga á lögum um Landsvirkjun var óháður aðili fenginn til að meta hvað telst vera hæfilegt ábyrgðargjald vegna þeirra ábyrgða eigenda sem eru á lánum Landsvirkjunar. Var það gert með samanburði á lánskjörum með og án ábyrgðar eigenda.

Núverandi ábyrgðargjald Landsvirkjunar og annarra aðila sem njóta ríkisábyrgðar samkvæmt lögum er 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga, þ.e. 0,25% á ári. Úttekt óháðs aðila á hvað væri hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna núverandi lánaskuldbindinga Landsvirkjunar, á grundvelli samanburðar á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar, leiddi í ljós að hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna þeirra skuldbindinga væri um 0,45% á ári.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu mun það hafa í för með sér talsverðan tekjuauka fyrir ríkissjóð.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.