139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

opinber innkaup.

189. mál
[14:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Innan ríkisins hefur nokkuð verið rætt um hagkvæmni og mögulega samlegð sem gæti falist í því að taka þátt í sameiginlegum útboðum erlendis, einkum með aðilum á Norðurlöndunum. Hefur þetta einkum verið rætt varðandi lyfjaútboð Landspítalans en spítalinn hefur talið unnt að ná verulegri stærðarhagkvæmni í tilteknum innkaupum á lyfjum með systurstofnunum sínum annars staðar á Norðurlöndunum.

Gildandi reglur um opinber innkaup leyfa ekki frávik í þessum tilvikum. Er opinberum innkaupum erlendis því verulega þröngur stakkur sniðinn í núgildandi löggjöf. Með hliðsjón af því að reglur Evrópska efnahagssvæðisins, EES, um opinber innkaup eru í verulegum mæli samræmdar þykir rétt að skapa kaupendum möguleika á því að kaupa inn í öðru EES-ríki, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Með frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra geti veitt miðlægri innkaupastofnun, sem í tilviki ríkisins væri Ríkiskaup, heimild til að bjóða út innkaup erlendis. Venjulega mundi útboð vera sameiginlegt með öðrum aðilum, t.d. miðlægri innkaupastofnun í viðkomandi ríki. Einnig getur þó verið um að ræða sérstakt útboð sem yrði tengt útboði annars aðila, t.d. fer fram samtímis og varðar svipaða vöru eða þjónustu. Gert er ráð fyrir að hin miðlæga innkaupastofnun óski fyrir fram eftir heimild fjármálaráðherra til að bjóða út í öðru ríki með rökstuddri beiðni. Gert er ráð fyrir að stofnunin rökstyðji að innkaupareglur EES hafi verið innleiddar í viðkomandi ríki og innkaup erlendis þjóni með einhverjum hætti markmiðum opinberra innkaupa, t.d. hagkvæmni og/eða virkri samkeppni eða öðrum lögmætum sjónarmiðum. Með öllu framangreindu á að vera komið í veg fyrir að umrædd heimild sé notuð til þess að komast fram hjá íslenskum reglum um opinber innkaup.

Í frumvarpinu eru tekin af tvímæli um að reglur viðkomandi erlends ríkis gilda alfarið um innkaup sem fram fara í ríkinu á grundvelli hinnar veittu heimildar. Í þessu felst m.a. að kærunefnd útboðsmála hefur ekki lögsögu yfir viðkomandi innkaupum og getur því ekki beitt þeim úrræðum sem nefndinni eru veitt í innkaupalögunum. Er þetta síðastgreinda atriði í samræmi við meginreglur þjóðaréttar.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur fremur að það geti dregið úr útgjöldum þótt ekki sé hægt að sjá fyrir í hversu miklum mæli það geti orðið.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar