139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

opinber innkaup.

189. mál
[14:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tel að það sé gott að mörgu leyti en ég vil hins vegar taka undir áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það sem kom fram í máli hans, og ég þarf svo sem ekki að þylja upp aftur til að lengja umræðuna, eru mörg álitaefni sem hv. viðskiptanefnd hlýtur að skoða mjög vandlega. Ég tel það mjög mikilvægt.

Það kemur líka fram í þessu frumvarpi að það eru miklir möguleikar á að spara. Það hefur komið fram áður hjá heilbrigðisráðuneytinu að Landspítalinn hafi hug á að fara í sameiginlegt lyfjaútboð með öðrum Norðurlandaþjóðum eða stofnunum annars staðar á Norðurlöndunum. Það kemur fram í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofunni að markaður með rekstrarvörur til heilbrigðiskerfisins í Noregi er t.d. 15 sinnum stærri en sá íslenski og danski markaðurinn 17 sinnum stærri en sá íslenski. Það gefur auga leið að ef menn ná samlegðaráhrifum í útboðum gæti verið um verulega hagsmuni að ræða.

Það kemur líka fram að sérgreindar heilbrigðisvörur, sem keyptar voru af stofnunum heilbrigðisráðuneytisins í fyrra, voru rétt rúmir 11 milljarðar sem segir okkur og kemur fram í fylgigögnum að þótt það væri ekki nema um 1% sem við næðum í hagræðingu með því að fara í sameiginlegt útboð á þessu sviði þá mundi það skila um 100 milljónum í minni kostnaði. Það er ekki lítið. Þar er um verulegan sparnað að ræða sem er mjög mikilvægt, ekki síst á tímum sem þessum.

Í heild sinni fagna ég þessu frumvarpi en ítreka samt að ég tek undir þær vangaveltur og áhyggjur sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan og vænti þess og treysti því að hv. viðskiptanefnd fari mjög vandlega yfir það.