139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er eins og gengur eitthvert misgengi í launaþróun á almennum vinnumarkaði og einhverjir hópar hafa hugsanlega náð að bæta kjör sín í skjóli sérstakra aðstæðna, en því miður er veruleikinn sá að almennt hafa lífskjör að sjálfsögðu skerst hér á landi. Menn verða að horfast í augu við það. Það gat varla öðruvísi farið.

Úttektir sýna hins vegar mjög skýrt, og ég veit að þar erum við hv. þingmaður sammála og ánægðir, að best hefur tekist að verja kjör hinna tekjulægstu þannig að kjaraskerðingin er hlutfallslega langminnst hjá tekjulægstu hópum samfélagsins, um 6,6% á sama tíma og millitekjuhóparnir hafa skerst um tæp 9% og þeir tekjuhæstu lækkað um upp undir 20%. Þetta næst fram í gegnum nokkrar samtengdar aðgerðir, þ.e. kjarasamninga sem hækkuðu fyrst og fremst lægstu laun. Þær hækkanir sem urðu í bótakerfunum á árunum 2007 og 2008 hafa haldið þótt þær hafi ekki verið verðtryggðar. Síðan hafa þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu sem hlífa lægstu launum við skattahækkunum sannað gildi sitt og út úr því kemur að þegar (Forseti hringir.) gögn frá skattinum eru skoðuð og álagningin og rauntölurnar fyrir árið 2009 kemur þessi mynd út.