139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur maður áhyggjur af ýmsu og að sjálfsögðu er það erfið glíma sem við stöndum í. Bjuggust menn við einhverju öðru? Ég held þó að í það heila tekið verði að segjast að Íslandi hefur vegnað betur í gegnum þessi tvö ár en allar spár gerðu ráð fyrir. Staða okkar í ýmsum samanburði er betri í dag en maður gat gert sér vonir um að hún yrði fyrir einu og hálfu til tveimur árum. Það þýðir auðvitað ekki að hér sé ekki áfram við mikla erfiðleika að glíma, það er það. Auðvitað er 7,5% atvinnuleysi dauðans alvara og mjög alvarlegt mál en það er þó miklu skárra en 10 eða 12% eins og spárnar gengu út á.

Að sjálfsögðu viljum við ekki missa fólk úr landi þó að ekkert sé við því að segja að ákveðinn hreyfanleiki sé ef fólki bjóðast tækifæri og möguleikar í nágrannalöndunum þar sem það hefur verið við nám o.s.frv. Er það endilega eitthvað sem menn eiga að (Gripið fram í.) líta á sem skelfilegan hlut? Er betra að fólk sé þá atvinnulaust hér heima? Ég held að menn verði að ræða þessa hluti málefnalega eins og þeir eru. Við höfum sem betur fer ekki enn fengið á okkur neina holskeflu fráflutnings, t.d. sambærilega við það sem frændur okkar Færeyingar lentu í, hvergi nærri. (Forseti hringir.) Það hefur dregið úr brottflutningnum að undanförnu þannig að það eru vissar vonir til að jafnvægi sé smátt og smátt að nást í þessu á nýjan leik.