139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar lífeyrinn. Ég ætla hins vegar að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um að heimilunum hefði tekist að ráða við skattahækkanir fyrra árs, þann stóra stafla sem hér var. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um það. Mörg heimili eru í miklum vandræðum einmitt út af þessum skattahækkunum. Það tel ég mjög alvarlegt og hann er mjög vanmetinn.

Við skulum bara rifja upp þegar við ræddum fjáraukalögin fyrir nokkrum vikum. Þar kom fram að það verður að bæta 1,8 milljörðum kr. inn í vaxtabótakerfið vegna skerðingar á tekjum heimilanna. Það blikka mörg ljós. Þó að hv. þm. Helgi Hjörvar sé ekki þeirrar skoðunar finnst mér mjög margir vinstri menn vera þeirrar skoðunar að það sé algjört lífsspursmál að hækka skatta og vilja ekki í raun og veru viðurkenna þau hættumerki sem komu í ljós þó að þau séu augljós. Síðan sagði hæstv. ráðherra áðan að hann væri farinn að mæla viðsnúninginn í efnahagskerfinu með flugferðum Íslendinga erlendis. Ég held að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) átti sig ekki á því að það eru bara flugferðir í aðra áttina.