139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í þessum orðaskiptum hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Helga Hjörvars hafi kristallast svolítill munur á sjónarmiðum og viðhorfum, einkum er lýtur að því hvernig við byggjum upp eða treystum tekjuforsendur ríkisins því að ríkið hefur fyrst og fremst tekjur úr tveimur áttum, annars vegar frá heimilunum og hins vegar frá fyrirtækjunum. Ef gengið er nærri heimilunum og fyrirtækjunum verða tekjuforsendur ríkisins ekki traustar, þá ganga menn á forðann og veikja undirstöðurnar með því. Það er kannski kjarni málsins í því sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum sagt við þessa umræðu og sögðum við umræðuna í fyrra, að við teljum að verið sé að ganga það nærri fyrirtækjum og heimilum að tekjuforsendur ríkisins verði ekki nægilega traustar, hafi ekki forsendur til að vaxa.

Leiðirnar sem við höfum lagt fram eru til á pappír og menn geta haft sínar skoðanir á þeim en þær liggja fyrir, bæði það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur nefnt í sambandi við skattlagningu séreignarsparnaðarins og eins það sem við höfum lagt þunga áherslu á. Og ég þykist viss um að hv. þm. Helgi Hjörvar skilur, hvort sem hann viðurkennir það hér í ræðustól eða ekki, að til þess að bæta stöðu ríkissjóðs bæði á næsta ári og til framtíðar þurfum við að koma hlutunum á skrið hér þannig að til verði meiri verðmæti, kakan stækki. Með því að auka alltaf álögurnar, hækka alltaf prósenturnar rýrum við möguleika okkar til að ná okkur upp úr kreppunni. Við festum okkur í stöðnuninni.