139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar áðan þá skildum við þegar ég spurði hv. þingmann hvaða sýn hann hefði á að auka atvinnu, auka umsvif í hagkerfinu og stuðla að vexti sem gæti orðið til þess að treysta fjárhagslegar stoðir ríkisins. Hv. þingmaður kom með ágætt svar en ekki við spurningunni heldur annarri spurningu sem ekki var spurð í mínu innskoti.

Þetta er í mínum huga kjarni málsins. Kjarni málsins er hvort við ætlum að beita enn frekari skattbreytingum en þegar eru orðnar við þessar aðstæður. Þær eru að mínu mati líklega til þess fallnar að hamla gegn því að við náum okkur aftur á strik. Þetta segi ég vegna þess að staða ríkissjóðs, sem vissulega þarf að standa vörð um, er nátengd stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Ef gengið er nærri heimilum og fyrirtækjum veldur það vandræðum og veikir tekjuöflunarstoðir ríkissjóðs. Þegar tekjur heimila og fyrirtækja dragast saman dragast tekjur ríkissjóðs saman. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan er hætta á því að við lendum í spíral, skrúfum okkur niður á við þar sem síhækkandi álögur, síhækkandi skattprósentur leiða til þess að tekjugrundvöllurinn veikist. Þetta eru atriði sem ég vildi halda til haga á þessu stigi.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar að skattbreytingarnar sem felast í frumvarpinu eru ekki miklar í samanburði við skattahækkanirnar sem samþykktar voru í tveimur áföngum í júní og desember á síðasta ári, en þær eru viðbót. Í tilviki fjármagnstekjuskatts hafa hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar sagt að það væri ekki mikið að fara úr 18% í 20. Við verðum að hafa það í huga að á einu og hálfu ári hefur skatturinn hækkað úr 10% í 20% nái þessar tillögur fram að ganga. Það hlýtur á allan mælikvarða að vera umtalsvert. Sama á við um tekjuskatt fyrirtækja. Það er ekki allur munur á að fara úr 18% í 20% en það munar um það þegar farið er úr 15% í 20%. Ég nefni þessa tvo skatta sérstaklega vegna þess þeir snerta vilja manna til þess að fjárfesta í atvinnulífinu.

Hvað vantar okkur í samfélagið í dag? Hvað vantar okkur til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað? Okkur vantar fjárfestingu. Á sama tíma og það er sár vöntun á þessu sviði kemur ríkisstjórnin með tillögur um að breyta sköttum sem hafa þau áhrif að það dregur enn úr hvatanum til fjárfestingar í atvinnulífinu. Er þetta skynsamlegt? Nei, í mínum huga er það ekki skynsamlegt.

Hér hefur líka verið minnst á heimilin. Það er rétt að samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins munu breytingarnar sem felast í þessu frumvarpi ekki hafa mikil áhrif á hagsmuni heimilanna, ekki miðað við það sem var gert á síðasta ári. Þær auknu álögur sem felast í frumvarpinu eru viðbót við stórauknar álögur sem áttu sér stað á síðasta ári.

Það er nauðsynlegt umræðunnar vegna, sérstaklega vegna þess að við ræðum þetta við 1. umr. og ekki er komin fram athugun á einstökum þáttum frumvarpsins sem fram fer í nefnd á milli umræða, að við rifjum upp með almennum hætti hvaða skattbreytingar hafa verið ákveðnar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er nauðsynlegt að skoða þetta heildstætt. Það er talað um í greinargerð með frumvarpinu að þær feli í sér 10,3 milljarða skattahækkanirnar sem muni skila sér til ríkissjóðs. Látum vera hvort það stenst í raun en þetta eru forsendur ráðuneytisins.

Í desember voru ákveðnar skattahækkanir, miðað við matið sem þá lá fyrir, vel á fjórða tug milljarða króna. Ég hef ekki handbærar tölur um útkomuna en þetta var áætlunin, vel á fjórða tug. Skattahækkanir bættust síðan við hækkanir sem áttu sér stað í júnílok. Þá voru skattar hækkaðir um rúmlega 20 milljarða miðað við þágildandi mat. Þetta tel ég að hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði að skoða þegar hún fer yfir málið. Þarna er um að ræða viðbót við mestu skattahækkanir Íslandssögunnar, alla vega þær sem teknar hafa verið á jafnskömmum tíma sem hér um ræðir.

Ég ætla líka að nefna dæmi fyrir hv. þingmenn hvaða skattar hafa verið hækkaðir, bara til upprifjunar. Í júní á síðasta ári, hvað var gert þá? Tryggingagjald var hækkað og komið var á nýju skattþrepi á hærri tekjur. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður, það var kallað tilfærsla í virðisaukaskattinum, sem fól í sér að ýmsar vörur voru færðar úr neðri flokki í efri flokk. Síðan var um að ræða hækkun og endurupptöku á vörugjöldum á fjölmargar vörutegundir. Þetta voru neysluskattarnir. Það var gengið býsna langt í því efni. Til viðbótar voru fleiri breytingar, m.a. tæknilegar breytingar og breytingar á bótum sem í raun leiða til hærri skattgreiðslna heimila og fyrirtækja.

Til viðbótar þessu var stigið enn þá stærra skref í desember. Hvað var gert þá? Þá var farið út í hækkun á tekjuskatti einstaklinga og farið var út í hækkun á tekjuskatti fyrirtækja. Þá var um að ræða almenna hækkun á fjármagnstekjuskattinum. Það var komið á hinum svokallaða auðlegðarskatti, það var lagt á kolefnisgjald og orku- og umhverfisskattar eins og mig minnir að þeir hafi verið kallaðir. Það var hækkun á olíugjaldi, það var hækkun á vörugjaldi af bílum, það var hækkun á bifreiðagjöldum, það var hækkun á áfengi og tóbak og það var hækkun á virðisaukaskatti, almenna þrepinu sem felur í sér að virðisaukaskattur er hér á landi ekki aðeins með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli heldur trúlega það hæsta. (Gripið fram í.) Og enn frekari hækkanir á vörugjöldum.

Samhliða voru ákveðnar ýmsar tæknilegar breytingar sem höfðu það að markmiði að hækka skattgreiðslur, sama á við um bótaþáttinn. Ég er örugglega að gleyma einhverju í þessari upptalningu en þetta eru meginatriðin. Það segir okkur að árið 2009 var í tveimur áföngum farið í viðamiklar skattahækkanir hér á landi hvað varðar tekjuskatta, óbeina skatta og ýmis gjöld. Svo dæmi sé tekið voru aukatekjur ríkissjóðs hækkaðar, ýmsir smáskattar sem þar eru færðir undir einn lið. Það var talað um að þetta væri óverulegt og vissulega voru þetta ekki háar tölur í hverju tilviki fyrir sig. Engu að síður var um að ræða gjöld sem bætast við og leggjast á almenning í landinu.

Það sem er í þessu frumvarpi er, eins og fram hefur komið í dag, hækkun á fjármagnstekjuskatti, hækkun á tekjuskatti fyrirtækja, hækkun á auðlegðarskatti, hækkun á erfðafjárskatti, hækkun vörugjalds á áfengi og tóbak, hækkun á kolefnisgjaldi, hækkun á vörugjaldi á bifreiðar og bifreiðagjaldi og síðan nýr skattur á fjármálastofnanir. Þetta er talsvert sem verið er að gera núna. Þegar horft er á þetta í samhengi við fyrri skattbreytingar og metið hvaða skattbreytingar hafa átt sér stað á einu og hálfu ári er þetta gríðarlegt. Þetta er langt umfram það að vera eitthvað sem hv. þm. Helgi Hjörvar kýs að kalla leiðréttingu, sem mér finnst vera heldur aum leið til þess að breiða yfir það hvað raunverulega er hér á ferðinni.

Miðað við það sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu sem liggur fyrir þinginu má ætla að skattbreytingarnar á síðasta ári muni skila ríkissjóði 68 milljörðum kr. aukalega til viðbótar við það sem áður var gert ráð fyrir, 68 milljarðar í auknar skatttekjur vegna skattahækkana. Ef þessi áform sem liggja á borðinu verða að veruleika má reikna með að skattahækkanirnar á þessu eina og hálfa ári verði samanlagt upp á sirka 82 milljarða kr. Það er auðvitað að því gefnu að hærri skattprósentur muni skila því sem reiknimeistarar fjármálaráðuneytisins telja að þær muni gera, sem er háð ýmsum forsendum sem kunna að breytast, en 82 milljarðar í skattahækkanir á einu og hálfu ári er auðvitað gríðarlegt. Hvaðan koma þessir peningar? Þeir koma frá heimilunum og fyrirtækjunum í landinu sem þegar eru í kreppu vegna tekjumissis og ýmissa áfalla sem á hafa dunið.

Það kann að vera rétt sem fram hefur komið í umræðunni, eins og ráða mátti af ræðu hv. þm. Helga Hjörvars, að í grófum dráttum hafi tekjuáætlun fjárlaganna og skattahækkananna frá því í fyrra skilað sér þannig að þetta hafi nokkurn veginn komið í hús með ákveðnum frávikum upp og niður, hærra í virðisaukaskatti, lægra í tekjuskatti. En hver eru áhrifin á greiðslugetu heimila og fyrirtækja? Hverjir eru, þegar búið er að taka út þessa fjármuni, möguleikar heimila og fyrirtækja til að reisa sig úr kreppunni? Það finnst mér vera lykilatriði sem við megum ekki horfa fram hjá í umræðunni því að ríkissjóður er ekki einangruð stærð í hagkerfinu. Ríkissjóður er í nánum tengslum við heimili og fyrirtæki í landinu. Og eins og ég sagði í upphafi, ef gengið er nærri heimilum og fyrirtækjunum með þeim hætti sem ég tel að núverandi ríkisstjórn og hennar meiri hluti á Alþingi hafi gert, eru möguleikar heimila og fyrirtækja til þess að rísa úr öskustónni og þar með tekjuöflunarmöguleikar ríkisins til frambúðar skertir til mikilla muna.