139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, mjög umfangsmikið mál þar sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt fram stefnumörkun sína þegar kemur að auknum álögum á heimili og fyrirtæki í landinu. Eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Birgir Ármannsson, gat hér réttilega um hljóta að vera einhver þolmörk bæði hjá íslensku atvinnulífi og íslenskum heimilum gagnvart endalausum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar. Eina stefnan sem ríkisstjórnin virðist hafa þegar kemur að auknum tekjum ríkissjóðs er að hækka skatta og til þess að reyna að ná fram einhverjum jöfnuði á að skera niður með blóðugum hætti í stað þess að reyna að fara þriðju leiðina sem er að auka verðmætasköpun í samfélaginu þannig að við þyrftum ekki að ganga eins hart fram gagnvart heimilum og fyrirtækjum og raun ber vitni.

Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan voru skattar hækkaðir til mikilla muna í fyrra. Hann vildi meina að við værum komin yfir erfiðasta hjallann í þeim efnum en greiningardeild Íslandsbanka birti þann 11.11. á þessu ári greiningu á því hverju þær skattahækkanir hefðu skilað á síðasta ári. Samkvæmt Morgunkorni hefur eftirfarandi komið í ljós, með leyfi forseta:

„Eins og áður er getið eru þessir liðir að skila mun minni tekjum en reiknað var með í fjárlögum sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins. Þannig er tekjuskattur einstaklinga 9% undir áætlun, tekjuskattur lögaðila 4% undir og skattur af fjármagnstekjum 7% undir.“

Þetta staðfestir akkúrat það sem við sögðum sem vöruðum við því að menn gengju allt of hart fram gagnvart heimilum og fyrirtækjum sem mundi jafnvel á endanum leiða til þess að skattstofnarnir mundu minnka, m.a. í formi þess að neðanjarðarhagkerfið mundi eflast til mikilla muna, menn færu að svíkja undan skatti. Það gæti leitt til þess að fólk flytti í síauknum mæli úr landi og við horfum á það í dag, því miður, að um 10 manns á dag flytjast burt héðan. Þessari þróun verðum við að snúa við.

Mér finnst fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í þessari umræðu fegra stöðuna til mikilla muna og í raun ekki segja alla söguna þegar við ræðum um þetta frumvarp og hvaða áhrif það hefur á stöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Með því frumvarpi sem við ræðum hér er gert ráð fyrir því að farið verði í sérstakar tekjuöflunaraðgerðir upp á 9,1 milljarð kr. Það á að lækka að raunvirði barnabætur, vaxtabætur og grunnfjárhæðir almannatrygginga, þær verða ekki verðbættar, og það á spara ríkissjóði 6,5 milljarða eins og sagt er.

Síðan er það ekki nefnt hér í mörgum ræðum að það á heldur ekki að hækka skattleysismörkin, þau eiga ekki að fylgja verðlagsþróun. Það eru 8 milljarðar kr. til viðbótar. Ef við tökum þetta frumvarp hér og þá framtíðarsýn sem ríkisstjórnin hefur gagnvart lágtekjufólki, barnafólki, millitekjufólki og atvinnulífinu almennt er verið að auka álögur og skerða framlög til þessara aðila um 23,6 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu, 23,6 milljarða ofan á allar skattahækkanirnar og þann niðurskurð sem átti sér stað í fyrra.

Þegar menn kasta fram hugmyndum um að nú sé nóg komið og að heimilin í landinu þoli ekki frekari skattpíningu og niðurskurð á barnabótum, vaxtabótum og húsaleigubótum er hugmyndum eins og þeim sem kveða á um að við ættum að skattleggja inngreiðslur séreignarsparnaðar, sem gæti skilað ríkinu 80 milljörðum kr. og sveitarfélögunum 40, einfaldlega slegnar út af borðinu af hæstv. fjármálaráðherra. Við gætum deilt fjármununum út og notað til næstu 2–3 ára á meðan við erum að ganga í gegnum mestu erfiðleikana og þangað til við náum okkar striki á ný en hæstv. fjármálaráðherra vill það ekki. Það er dapurlegt vegna þess að ég hef ekki sannfærst um að heimilin í landinu þoli frekari álögur ef við samþykkjum þetta frumvarp. Þegar þessar tölur eru teknar saman, frystingar á hækkunum á bótum almannatrygginga, sem eru aldraðir og öryrkjar, lækkun á barnabótum, lækkun á vaxtabótum, lækkun á húsaleigubótum, ef það á enn að halda áfram að sverfa af þeim hópum sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á þeim flokkum sem ég hef nefnt hér líst mér ekki á blikuna. Því miður höfum við ekki náð samstöðu á vettvangi þingsins þegar kemur að þessum hlutum og það er kannski vegna þess að ríkisstjórnin vill einfaldlega keyra sína stefnu í gegn sem snýr fyrst og fremst að niðurskurði og stórfelldum hækkuðum álögum á heimili og fyrirtæki.

Við ræddum í síðustu viku og þessari um vanda skuldugra heimila. Samkvæmt úttekt sem gerð var á skuldum heimilanna í landinu eiga um 20 þús. heimili í miklum erfiðleikum með að ná endum saman sé miðað við neyslustuðul Hagstofunnar. Þetta er byggt á útreikningum sem sérstök nefnd undir forustu Sigurðar Snævarrs gerði á skuldamálum heimilanna. Þar er einungis talað um húsnæðislán, ekki önnur lán, ekki bílalánin, ekki skuldir við Lánasjóð íslenskra námsmanna, ekki yfirdrátt, ekki meðlagsskuldir og fleira mætti nefna. Ríkisstjórnin horfir einungis a örlítinn hluta af vanda heimilanna í landinu og hefur greinilega ekki hugmynd um heildaviðfangsefnið; stórskuldug heimili og stórskuldugt atvinnulíf. Og enn á að hækka álögur á heimilin og fyrirtækin.

Einhvern tímann hljótum við að segja stopp. Hversu langt er hægt að ganga á þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á? Hæstv. ráðherra gerði voðalega lítið úr því áðan að með því að hækka verð á áfengi, olíu og bensíni væru þau vísitöluáhrif einungis 0,2%. En hvað þýðir það? Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað það hækkar skuldir heimilanna í landinu mikið? Þessi hækkun hækkar skuldir heimilanna um 2–2,5 milljarða kr. Það hljómar dálítið einkennilega að við sem tölum heldur fyrir lækkunum á skuldum heimilanna þurfum að horfast í augu við það að vera með ríkisstjórn í landinu sem stöðugt veitist að heimilunum með gjaldahækkunum sem þessum. Í hinu orðinu segir hæstv. fjármálaráðherra: Ja, við skulum bara ekki skoða einu sinni að skattleggja inngreiðslur séreignarsparnaðarins, við höfum ekki efni á því.

Ég spyr: Á hverju höfum við efni? Höfum við efni á því að frysta þessa bótaflokka, frysta skattleysismörkin og hækka skattana, samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér, um 23,6 milljarða kr. á næsta ári ofan á tugi milljarða króna sem við hækkuðum skatta á heimili og fyrirtæki í fyrra?

Sársaukamörkin eru einhvers staðar, frú forseti, og öll teikn benda til þess að við séum komin yfir þau sársaukamörk. Í þessu frumvarpi er reyndar minnst á að nú geti heimilin nýtt sér auknar heimildir til að taka út séreignarsparnað. Þá er gert ráð fyrir því að á móti aukningu þessara álaga á heimilin geti viðkomandi heimili einungis tekið út sparnaðinn sinn. Það er svo sem ekkert góðverk af hálfu ríkisstjórnarinnar að leyfa fólki að taka út fjármuni sem það á með réttu, en það vill svo til að þessi heimild hefur verið til staðar í á annað ár og margar fjölskyldur í landinu eru því miður búnar með þennan sparnað sinn. Og hvað tekur þá við? Jú, ískaldur raunveruleikinn.

Fólk vinnur jafnvel tvær vinnur til að ná endum saman á milli mánaðamóta, og nær því varla, og það er eðlilegt að þessi sömu heimili velti fyrir sér framtíðarsýn stjórnvalda fyrir hönd heimilanna í landinu. Á að skattleggja lágtekjufólk, barnafólk og millistéttina í landinu með þeim hætti að fólk geti einfaldlega ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem blasa við því í dag?

Hvaða skuldbindingar erum við að ræða um? Á þetta fólk eitthvað sökótt í þeim efnum að skuldirnar séu orðnar það miklar að það geti ekki lengur staðið undir þeim skuldbindingum? Nei, fólk gat einfaldlega ekki séð fyrir þann forsendubrest sem átti sér stað haustið 2008. Hvað gerðist þá? Þá hrundi íslenskt hagkerfi. Margt hefur komið í ljós, m.a. það að stærstu bankarnir tóku stöðu gegn íslensku krónunni í á annað ár. Á meðan lánuðu sömu aðilar íslenskum heimilum gengisbundin lán, hvort sem var til bílakaupa eða húsnæðiskaupa, og við hrunið tvöfölduðust skuldir heimilanna gagnvart aðilum sem tóku stöðu gegn gjaldmiðlinum okkar. Nú segja sumir að fólk skuli bara gjöra svo vel að greiða skuldir sínar. Í hinu orðinu eru skattar hækkaðir á þessa aðila, vaxtabætur, barnabætur og húsaleigubætur eru skertar, skattleysismörkin eru fryst. Þau eiga ekki að haggast í takt við almennar verðlagshækkanir og á tyllidögum heyrum við að þeir aðilar sem leggja þetta hér til kalli sig hina norrænu velferðarstjórn.

Ég veit ekki, frú forseti, hvað ríkisstjórnin getur lengi til viðbótar kallað sig norræna velferðarstjórn. Með því frumvarpi sem við ræðum hér er vegið að afkomu þeirra hópa í samfélaginu, barnafólki, millitekjufólki og þá líka sérstaklega lágtekjufólki, öryrkjum og öldruðum, sem mega síst við því. Ég veit ekki hvort þessir hópar senda bara okkur í stjórnarandstöðunni tölvupósta og hringja í okkur þar sem fólk lýsir því hvað það er erfitt að ná endum saman eins og staðan er í dag, þau skilaboð berast greinilega ekki til stjórnarliðanna í hinni norrænu velferðarstjórn.

Það heiti á þessari ríkisstjórn fer að verða að þvílíkum öfugmælum að maður fer að hlæja þegar hæstv. ráðherrar kenna sig við norræna velferð. Það sem við erum að ræða hér (Gripið fram í.) á ekkert skylt við norræna velferð og er í raun og veru móðgun við þá stefnu sem Norðurlöndin hafa haft í velferðarmálum á undangengnum áratugum. Enda sjáum við það hér þegar mið er tekið af lífskjörum hér á landi og borin er saman staðan hér og í ýmsum öðrum löndum að lífskjörin fara hratt versnandi. Misskiptingin er slík að fólk getur jafnvel ekki í dag — auðvitað voru erfiðleikar áður en erfiðleikarnir eru svo margfalt stærri — gefið börnunum sínum nægilega mikið að borða án hjálpar ýmissa samtaka sem hafa gert mikla og góða hluti og unnið fórnfúst starf á undangengnum mánuðum. (Gripið fram í.)

Nú höfum við það staðfest að á fyrstu níu mánuðum ársins skiluðu skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sér ekki í þeim mæli sem hún hélt að mundi gerast. Það hefur komið í ljós að tekjuskattur einstaklinga er 9% lægri en ríkisstjórnin gerði ráð fyrir, væntanlega vegna þess að menn hækkuðu skattana of mikið. Tekjuskattur lögaðila er 4% undir áætlun og fjármagnstekjur 7% undir áætlun. Og nú á að halda áfram á sömu braut, skapa einhverja undraveröld þar sem menn sýna í excel-skjölum fram á einhverjar áætlanir um að með því að hækka skatta svona og svona mikið muni tekjur ríkissjóðs aukast svona og svona mikið.

Þannig er veruleikinn ekki í dag og við vitum það öll sem viljum vita að neðanjarðarhagkerfið blómstrar um þessar mundir. Fólk kemur sér í síauknum mæli undan því að borga allt of háa skatta. Fólk reynir líka að bjarga sér með þeim hætti að ná endum saman til að halda húsnæði sínu og öðrum eigum þannig að staðan er grafalvarleg. Það er ástæða til þess við 1. umr. að hvetja efnahags- og skattanefnd, sem ég á sæti í, til að fara mjög vandlega yfir forsendur þessa frumvarps. Það er lágmark áður en þetta frumvarp verður afgreitt að Alþingi Íslendinga geri sér einhverja grein fyrir heildarskuldastöðu og vanda íslenskra heimila.