139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get verið sammála honum um að mikilvægt sé að hafa einhverja varnagla á þessu, hvort sem það eru skattleysismörkin eða lífeyririnn. Hv. þingmaður kom inn á það í andsvari sínu við mig áðan að við á hinu háa Alþingi, sama hverjir eru í ríkisstjórn og á hvaða tíma, verðum að standa að baki þeirra hópa sem hafa engan samningsrétt, Það verður að fylgja því að við skerum þetta ekki alltaf niður. Við getum síðan deilt um það hvort gefin eru fyrirheit um að skattleysismörkin hækki miðað við vísitölu eða verðlagsþróun, það má deila um það og skilar okkur kannski ekkert áfram.

Hv. þingmaður benti á að skatttekjurnar væru rúmlega þrefalt það sem væri í tekjuskatt á einstaklinga en hin dapurlega staðreynd er sú að núna á fyrstu níu mánuðum ársins eru skatttekjur einstaklinga 6,4 milljörðum undir því sem áætlað var. Þetta er um það bil 9% af því sem reiknað var með. Ef heldur áfram sem horfir endar þetta sennilega í 9–10 milljörðum án þess að ég slái nokkru föstu um það því þróunin hefur verið ör á síðustu þrem mánuðum, sem er umhugsunarefni út af fyrir sig.

Það sem heldur tekjum ríkissjóðs innan þeirra marka sem hv. þingmaður nefndi eru einskiptisaðgerðirnar sem ég benti á áðan. Við keyptum jöklabréf af seðlabankanum í Lúxemborg og það skapaði okkur 17,5 milljarða. Við seldum sendiherrabústað fyrir 1,7 milljarða. Þetta gerir 19,5 milljarða. Samt eru tekjur ríkissjóðs ekki nema um tæpir 13 milljarðar í plús. Ef við hefðum ekki farið í þessar tvær aðgerðir væru skatttekjurnar núna í 7 milljarða mínus. Það er mjög mikilvægt þegar við ræðum þetta að við séum meðvituð um að þessar eru ástæðurnar fyrir (Forseti hringir.) stöðunni í dag.