139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki tími til þess í stuttu andsvari að fara yfir þau álitamál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. En þegar hv. þingmaður segir að eðlilegt sé að heimilin og fyrirtækin njóti meiri arðs af auðlindunum þá verð ég hins vegar að segja fyrir mína parta að ef við byggjum ekki svo vel að eiga þessar auðlindir, værum við ekki stödd hér. Það er ekki flóknara en það í mínum huga. Velmegun þjóðarinnar byggist að sjálfsögðu á auðlindum hennar.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega sjávarútveginn vil ég minna á að sjávarútvegurinn greiðir núna 10% gjald eða svo að ég hafi það alveg rétt, rúmlega 9% gjald af afkomunni beint í auðlindagjald. Mér finnst að menn fari oft dálítið frjálslega með þessa hluti.

Ég er hins vegar algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði í fyrri hluta andsvars síns. Maður þarf ekki að skoða mörg fjárlagafrumvörp aftur í tímann til að sjá að þegar við erum í niðursveiflu ofáætlum við tekjurnar. Það er bara staðreyndin. Þegar við erum í uppsveiflu vanáætlum við tekjurnar. Þegar maður skoðar frumvörpin í gegnum tíðina er niðurstaðan oft þannig að þegar ríkisbáknið var að þenjast út áætluðu menn kannski að útgjöldin yrðu, svo við notum einhverjar tölur, 400 milljarðar og tekjurnar yrðu 430 milljarðar, Síðan urðu útgjöldin óvart 430 milljarðar. Það var hins vegar bara rétt af vegna þess að tekjurnar reyndust líka mun hærri, þær fóru í 460 milljarða og afgangurinn varð 30 milljarðar. Menn höfðu allt of mikinn slaka í ríkisfjármálum hér í mörg, mörg ár, ég er sammála hv. þingmanni um það.

Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt núna í niðursveiflunni að við ofáætlum ekki tekjurnar sem við fáum með skattahækkununum heldur gerum okkur grein fyrir því hverju þær muni raunverulega skila svo við vöknum ekki upp við vondan draum og stöndum frammi fyrir því að þær hafi hugsanlega ekki skilað sér.