139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Samkvæmt þeim þingsköpum sem við vinnum eftir leyfir knappur fundartími því miður ekki mikla efnislega umfjöllun um þetta mál. Málið snertir skattahækkanir og gjaldahækkanir á heimili og fyrirtæki á næsta ári og er í raun og veru stefnumarkandi plagg ríkisstjórnarinnar. Það er í 27 greinum. Margar af þeim greinum hafa marga undirliði. Ég hef einungis 15 mínútur til að tjá mig um öll þau umfangsmiklu mál sem blasa við okkur þannig að ég ætla að nota mér seinni ræðu mína sem er nú aðeins fimm mínútur til þess að fara áfram yfir þetta plagg sem er stefnumarkandi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Það hvarflar að mér þegar ég les um niðurskurð til bótaflokka og annarra viðkvæmra málaflokka að menn skelli fram nógu hrikalegum tölum til þess að geta svo dregið í land um helming við 2. umr., rétt eins og ríkisstjórnin gerði gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þar var fáránlegur niðurskurður kynntur til sögunnar. Daginn eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um þann mikla niðurskurð voru ráðherrar og stjórnarþingmenn farnir að tala um að draga yrði eitthvað af því til baka. Ef menn geta boðað 30–40% niðurskurð og halda að íbúar verði þá sáttir við 15 eða 20% niðurskurð, skilja þeir raunveruleikann ekki rétt.

Ég náði ekki að fara aðeins yfir hækkun á eldsneyti í fyrri ræðu minni. Nú á í enn eitt skiptið að hækka gjöld á áfengi og eldsneyti. Ég minntist á að 0,2% vísitöluhækkun mun hækka skuldir heimila í landinu um 2 til 2,5 milljarða kr. Það munar um minna. Þegar við tölum um eldsneyti og ræðum um hinar dreifðu byggðir vitum við að ökutæki eru fætur fólksins í þeim byggðarlögum. Menn labba ekki á milli þéttbýlissvæða á landsbyggðinni. Menn þurfa nauðsynlega að aka um í ljósi þess að þar eru miklar vegalengdir, að ég tali ekki um skólaakstur og annað þar fram eftir götunum.

Nú á enn aftur að hækka verð á olíu og bensíni. Með öðru frumvarpi sem hæstv. ráðherra ætlar að leggja fram á eftir er snertir vörutolla af bifreiðum sem fluttar eru inn til landsins er alveg ljóst að landsbyggðin mun aftur verða þar undir vegna þess að verð á fjórhjóladrifnum bílum mun hækka. Maður veltir því fyrir sér hvar þessi ríkisstjórn ætlar að nema staðar þegar kemur að því að ná fjármunum úr vösum þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi áðan að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á líka að draga úr niðurgreiðslu hjá heimilum sem ekki hafa aðgang að hitaveitu. Fram kom hjá hv. þingmanni að heimili á þessum svæðum borga í dag jafnvel yfir 500.000 á ári til þess að hita upp sín heimili, hátt í tvöfalt meira en á mörgum öðrum stöðum á landinu, og draga á saman niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði á þessum svæðum. Hér er um grundvallarþörf þessa þjóðfélagshóps að ræða, sem eru um 10% heimila í landinu.

Ég vil segja að lokinni þessari umræðu, og mér þykir miður að hafa ekki lengri tíma til þess að fara yfir málið, að hér er því miður allt of hart gengið fram í þeim efnum að hækka skatta á heimili og fyrirtæki. Ég spyr hæstv. ráðherra, í ljósi þess að honum finnst í lagi að leyfa að einstaklingar geti tekið út séreignarsparnað sinn þannig að ríkið fái skattlagninguna af því: Hver er munurinn á því eða að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði þannig að ríkissjóður geti fengið 80 milljarða og sveitarfélagið 40? Ég sé ekki hver munurinn er á því í ljósi þess að ríkissjóður fær fyrr til sín tekjur en áætlað var.

Að lokum vil ég segja að við ræðum hér mál sem snertir viðkvæma málaflokka. Ég geri mér grein fyrir því og ég vil undirstrika það í lok máls míns að auðvitað þarf að skera niður í íslensku samfélagi og gæta aðhalds. Í einhverjum tilvikum þarf að hækka gjöld og álögur, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera.

Í því samhengi vil ég nefna að ríkisstjórnin áætlar að skera niður um 30 milljarða kr. í ríkisfjármálum en vextir af hinu svokallaða Icesave-samkomulagi á ári eru 42 milljarðar kr. (Gripið fram í.) Sem betur fer náðum við að koma í veg fyrir að þeir (Forseti hringir.) samningar yrðu samþykktir, enda felldi þjóðin þá afarkosti og þrælasamninga með yfirgnæfandi meiri hluta. Nær allir sögðu (Forseti hringir.) nei. (Gripið fram í.)