139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá málefnalegu og skiljanlegu umræðu sem hér hefur orðið. Það er að sjálfsögðu þannig, og það endurspeglar þessi umræða, að margir hefðu viljað hafa hlutina hér öðruvísi ef það hefði verið í boði að ekki hefði þurft að koma til þeirra fjölmörgu erfiðu ráðstafana sem þarf að gera til að ná tökum á rekstri hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. En það er ekki eins og við eigum eitthvert óskaplega mikið frjálst val í þeim efnum. Það má auðvitað taka málin hvert fyrir sig og lengi komast að þeirri niðurstöðu að þetta og hitt sé ekki hægt, það sé ómögulegt að fara svona með þennan eða hinn málaflokkinn. En menn verða þá líka að hugleiða hvar sú vegferð endar ef menn fara meira og minna í gegnum útgjöldin, tína til þetta, tína til hitt og segja: Þetta er ekki hægt og það má ekki skerða þetta eða draga úr þessu. Það má alls ekki afla tekna svona eða hinsegin. Hvar endar sú vegferð? Hún endar þá í því að menn lenda algerlega út af sporinu. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að rökræða um það hvort þessar útfærslur og áherslur séu þær skástu sem í boði eru eða væri hægt að hafa eitthvað af þessu öðruvísi.

Það skiptir þó miklu máli að þetta sé þá rætt innan einhvers þess ramma, ef til staðar er einhver samstaða um það að verkefni okkar sé að ná tökum á hallarekstri ríkisins, að reyna að draga úr útgjöldum og afla tekna eftir því sem við teljum mögulegt þannig að gatið verði sem minnst, að hallinn fari hratt niður. Ég fór yfir það í framsöguræðu minni á hvaða vegferð við erum í þeim efnum og náist í grófum dráttum fram markmið ríkisfjármálaáætlunarinnar núna erum við komin mjög langa leið úr þeim mikla halla sem við sátum uppi með á árinu 2008 og í framhaldinu.

Varðandi aðgerðir í sambandi við atvinnusköpun erum við að sjálfsögðu líka öll sammála um það. Mér finnst eiginlega ekki samboðið virðingu Alþingis að ræða þetta á öðrum nótum en þeim að sjálfsögðu, ég tala nú ekki um að á tímum atvinnuleysis vilja allir stuðla að því að hér skapist störf, verðmætasköpun og framleiðsla. Í einhverjum mæli eru menn kannski ósammála um tilteknar leiðir í þeim efnum, en almennt ekki. Ég hef engan mann heyrt mæla gegn því að það sem við viljum gjarnan gera er að hagkerfið komist aftur sem best í gang, að hin fjölmörgu litlu og meðalstóru hjól fari að snúast. Það er það sem þarf. Þar hefur ýmislegt tafið fyrir okkur og enginn vafi á því að skuldavandi atvinnulífsins hvílir þar þungt á og hindrar að fyrirtækin séu komin eins vel í gang með starfsemi sína, fjárfestingar og framtíðarplön og þau annars væru. Mörg fyrirtæki eru í sjálfu sér í ágætisrekstri hvað það snertir að tekjustreymið er gott í útflutnings- og samkeppnisgreinum en skuldirnar miklar og það hamlar því að menn fari af stað í fjárfestingar.

Að sjálfsögðu er ómaklegt og rangt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekkert gert í þeim efnum. Ég get alveg farið í sérstaka ræðu um það og talið upp þær fjölmörgu aðgerðir sem þó hefur verið reynt að grípa til innan mjög takmarkaðs svigrúms. Við höfum reynt að grípa til ívilnandi og hvetjandi aðgerða sem verkuðu örvandi, eins og að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 100%, bæta við skattaívilnunum fyrir þá sem kaupa slíka vinnu þannig að umfangið verði sem mest á þeim vettvangi. Það hefur heppnast vel. Sú aðgerð hefur tvímælalaust heppnast vel sem og átakið Allir vinna. Það liggur núna fyrir að líklega 10–12 þús. heimili hafa nýtt sér þessi úrræði umfram það sem í gangi var áður en breytingarnar voru gerðar.

Það er búið að leiða í lög stuðning við nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Hér er að koma frumvarp sem rýmkar þann stuðning umtalsvert frá upphafsskrefunum til að reyna að hlúa að nýsköpun og rannsóknum og þróun í vaxandi greinum, sprotafyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum sem eru að leggja af stað út í lífið og ætla sér að verða stór. Þar er gróska og þar er vöxtur. Þar hafa verið mannaráðningar. Það er t.d. athyglisvert að samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá þeim sem halda utan um starfsmannamál bankastarfsmanna hefur býsna drjúgur hluti þeirra sem misstu vinnu í bönkum við hrun þeirra haustið 2008 og mánuðina sem á eftir fóru fengið vinnu í slíkum greinum, fengið störf við hæfi og miðað við menntun sína og reynslu, enda höfðu bankarnir sogað til sín mikið af menntuðu fólki á ýmsum sviðum, m.a. tölvufólk, verkfræðinga, stærðfræðinga, lögfræðinga og viðskiptafræðinga. Að einhverju leyti er þegar í gangi sú þróun og sú aðlögun sem auðvitað hlýtur að þurfa að verða í atvinnulífi okkar þegar stórir geirar eins og bygginga- og mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi nánast hrynja. Þá taka aðrar greinar við þar sem eru hagstæð skilyrði og vöxtur í gangi.

Við erum búin að setja almenn rammalög um nýfjárfestingar með ívilnanir þar sem það er skilgreint hvað við megum gera innan ramma hins evrópska regluverks til að styðja við nýfjárfestingar í fyrirtækjum miðað við byggðastuðning og annað sem heimilt er að gera í þeim efnum. Við höfum stóraukið fjárveitingar í viðhaldsframkvæmdir á vegum hins opinbera. Á þessu ári verður unnið fyrir 3.200 millj. kr. í slíkum verkefnum. Við settum umtalsverða fjármuni í markaðsátak í ferðaþjónustu þegar ský dró þar fyrir sólu í bókstaflegum skilningi í vor í tengslum við eldgosið. Samtals vörðu ríkið og greinin 700 millj. kr. í mikið markaðsátak í vor og í sumar sem hefur tvímælalaust skilað miklum árangri, leitt til þess að síðari hluti sumarsins og haustið var gott og horfur eru ágætar, sennilega betri en nokkru sinni fyrir árið sem í hönd fer hvað varðar bókanir, framboð á flugi til landsins o.s.frv.

Almennt má segja að raunhagkerfið íslenska spjari sig vel miðað við aðstæður og sýni bæði viðbragðsflýti og aðlögunarhæfni að breyttum aðstæðum. Að sjálfsögðu er þungur róður hjá mörgum fyrirtækjanna og alveg sérstaklega vegna skulda og þess samdráttar sem hér hefur orðið.

Til að nefna aðeins nokkra þætti geri ég það þannig að þeirri umræðu sé hér ekki ómótmælt að ekkert hafi verið reynt og ekkert verið gert í þessum efnum.

Að sjálfsögðu er stjórnvöldum þröngur stakkur sniðinn. Bæði ríki og sveitarfélög hafa neyðst til þess að draga úr fjárfestingum sínum og umsvifum. Það er fátt annað í boði. Það er auðvitað tilfinnanlegt á tímum sem þessum þar sem hið æskilega væri auðvitað að menn gætu dreift í einhverjum mæli ívilnandi eða hvetjandi aðgerðum, „stímúlus-aðgerðum“ eins og margar ríkisstjórnir í löndum í kringum okkur hafa reynt að gera. Sumar eru reyndar að springa á limminu í þeim efnum og skuldavandinn setur mönnum skorður þar.

Varðandi tekjuöflunaraðgerðirnar sem menn ræða hér mikið um er rétt að setja þær í örlítið samhengi. Þetta eru 7,4 milljarðar kr. í sértækar tekjuöflunaraðgerðir. Ef við höldum því að rýmka heimildir til útgreiðslu séreignarsparnaðar til hliðar sem að sjálfsögðu leiðir sjálfkrafa til þess að ríki og sveitarfélög fá skatttekjur þegar greitt er út úr séreignarsjóðum standa eftir 7,4 milljarðar kr. Hvar er borið niður í þeim efnum? Það er lítils háttar hækkun á fjármagnstekjuskatti sem enn er þó lágt hlutfall hér miðað við fjármagnstekjuskatt í flestum öðrum löndum. Það er sambærileg hækkun á tekjuskatti hagnaðar lögaðila. Þau fyrirtæki sem eru þó með góða afkomu og hagnast leggja sitt af mörkum. Sömuleiðis er áfram um eitt lægsta hlutfall í tekjuskatti lögaðila að ræða sem finnst innan OECD, trúlega bara Írland sem er fyrir neðan okkur og reyndar umræða uppi um það núna að Írar neyðist til að hækka þá skatta.

Það er hækkun á ríkasta fólk samfélagsins, stóreignafólkið, það sem á skuldlausar, hreinar eignir upp á 100 millj. kr. eða þar yfir. Ég held að fáum finnist mjög ósanngjarnt við þessar aðstæður að sá hópur sem t.d. álagningin nú í sumar sýnir að er sem betur fer til staðar og á miklar eignir leggi sitt af mörkum. Þetta er m.a. fólkið sem meira og minna fékk allt sitt fjármagn varið með tilstyrk ríkisins þegar bankarnir hrundu. Það var ekki sjálfgefið að farin yrði sú leið sem þar var farin, að koma öllum innstæðum í skjól og m.a.s. síðan þær ákvarðanir sem bankarnir tóku sjálfir um útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðum. Auðvitað er það pólitík. Ef menn eru móti því að reyna að hafa skattkerfið svona, að þeir sem eru sannanlega aflögufærastir leggi þá mest af mörkum, þá það. Við þekkjum þá umræðu. Hún geisar núna t.d. í Bandaríkjunum. Þar takast menn á um það að repúblikanar heimta að sérstakar skattalækkanir Bush-stjórnarinnar á ríkasta hluta Bandaríkjamanna verði framlengdar, skattalækkanir sem til stóð að afnema. Þá ræða menn það ef það er pólitískur ágreiningur um slíka hluti.

Sú takmarkaða tekjuöflun upp á 7,4 milljarða kr. með sértækum hætti eins og hér er lagt upp með, það er ekki hróflað við tekjuskatti, ekki virðisaukaskatti, ekki tryggingagjaldi, ekki hinum stóru breiðu skattstofnum í þessari umferð, getur ekki talist mjög stórtæk sem hluti af yfir 40 milljarða kr. aðgerðum til að koma hallanum á ríkissjóði úr 90 milljörðum kr. eins og hann verður á þessu ári að frátöldum söluhagnaði og niður í eða niður fyrir þá 40 milljarða kr. sem við höfum stefnt að. Í grófum dráttum náum við markmiðum okkar um að koma frumjöfnuði í lag á næsta ári og draga verulega úr hallanum.

Hv. þm. Birgir Ármannsson spurði hvort hér væru þá komin fram þessi tekjuöflunarfrumvörp. Já, að grunninum eru þau komin fram, öll sem snúa að einhverjum meiri háttar aðgerðum í þeim efnum. Það er að vísu væntanlegur annar bandormur með allmiklum tæknilegum breytingum í skattamálum og á fleiri stöðum, en þar er ekki um neinar stórar álagningartölur að ræða. Að mestu leyti eru þeir krónutöluskattar teknir með inn sem færðir verða upp til verðlags eins og til stendur.

Um aukatekjur og dómsmálagjöld og annað því um líkt kann að vera eitthvað eftir af því sem ég þarf bara að athuga nánar. Ég bý hv. þingmenn undir að þeir fái til sín á næstu dögum það sem gengur undir vinnuheitinu „bandormur II“.

Við höfum áður rætt verðlagsáhrifin. Þau eru óveruleg, enda var borið niður sérstaklega með það í huga að reyna að halda þeim í lágmarki, talið að þau gætu verið nálægt 0,2%. Kaupmáttaráhrifin eru einhver, en þó eru þau miklu minni en ella væri vegna þess hvernig borið er niður og hverjir það eru þá sem sæta honum að stærstum hluta til, eins og þeir sem eru með mestu eignirnar.

Að sjálfsögðu hjálpar mikið í þessum efnum hvað verðbólgan fer hratt niður. Hún stefnir jafnvel inn fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í lok ársins. Það breytir geysilega miklu. Þá er minna bit í þeim aðgerðum sem því miður eru hluti af þessu, einfaldlega vegna þess að annað var ekki talið viðráðanlegt, þ.e. að uppreikna ekki grunnfjárhæð í bótakerfunum og gera ekki ráð fyrir breytingum á launaliðum í þessu frumvarpi. Gerðu menn það og skytu á einhverja áætlun í þeim efnum, hvort sem það væri full verðlagsuppfærsla miðað við verðbólguforsendur frumvarpsins eða eitthvað annað, yrðu menn að mæta því annaðhvort með meiri halla eða tekjuöflun eða meiri niðurskurði. Þannig er það bara. Þetta er svona. Við verðum að horfast í augu við það. Það verða engin töfrabrögð framin þegar menn standa frammi fyrir hinum köldu staðreyndum mála. Það er ákaflega erfitt að koma þessu saman við þessar aðstæður. Það lá alltaf fyrir að að mörgu leyti yrði fjárlagagerðin fyrir árið 2011 sú erfiðasta. Því var ég búinn að spá og það sagði ég hér í fyrravor, hughreystandi við þá sem þá áttu bágt vegna þeirra takmörkuðu aðgerða sem ráðist var í fyrst á miðju ári og síðan aftur í fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár. Það liggur í hlutarins eðli að það er erfiðara að fara í aðra eða þriðju umferð aðgerða af þessu tagi en það er einfaldlega það sem hefur lengi legið fyrir að við yrðum að gera, að taka þetta í áföngum og skrefum. Vonandi leggst það svo með okkur að hagkerfið fari að rétta úr kútnum. Það er byrjað að gera það. Viðsnúningurinn er sannarlega orðinn. Spurningin er eingöngu hver hagvöxturinn nákvæmlega verður á næsta ári eða hver hann á eftir að reynast hafa orðið á síðari hluta þessa árs.

Kaupmáttarfallið hefur stöðvast og þróunin í þeim efnum heldur snúist við. Á margan hátt hafa skilyrðin tvímælalaust batnað. Það hefur tekist að endurheimta og ná nokkurn veginn stöðugleika hvað varðar verðbólgu, vexti, gengi og almenna þróun, en við þurfum auðvitað meira. Við viljum ná hlutunum í gang.

Þegar menn tala um störfin horfa menn til þess að það hafi fækkað um yfir 20 þús. störf á sama tíma og atvinnuleysi sé 11–12 þús. Þá erum við að bera þetta saman við störfin eins og þau voru hér á algerlega yfirspenntum vinnumarkaði þegar tugir þúsunda fólks af erlendu bergi brotnu voru hér í vinnu. Það er kannski ekki sú raunhæfa mæling sem við eigum endilega að miða við. Það sem við hins vegar augljóslega þurfum eru þessi 12–15 þús. störf sem þarf til að allar vinnandi hendur í landinu hafi vinnu. Besta viðmiðunin er ekki endilega ástandið á toppnum 2007. Ég bið menn að gera greinarmun á þessu tvennu. Fyrr má nú gagn gera en það ástand sem var hér þegar yfirspennan var sem mest á hlutunum og reyndist okkur kannski ekki sérstaklega vel. Eða var það?

Ég held að ég hafi þá svarað þessu sem til mín var sérstaklega beint.

Að lokum varðandi spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar vissi ég af því að hugmyndin um að fella rækju út úr kvóta hefur verið til skoðunar. Sú umræða kom m.a.s. upp í minni tíð sem sjávarútvegsráðherra en var þá lögð til hliðar. Ég vissi af því að þetta var til skoðunar, en þarna var að sjálfsögðu á ferðinni ákvörðun sjávarútvegsráðherra eins og lög og reglur gera ráð fyrir, hann tekur ákvarðanir sem snúa að kvótasetningu einstakra tegunda og annað í þeim dúr. (Forseti hringir.)