139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sú sundurþykka ríkisstjórn sem við höfum haft við stjórnvölinn hafi ekki verið að hjálpa mikið til. Var þetta einhvern tímann raunhæft? Hvað sögðu menn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum haustið 2008? Þeir sögðu: Meðalkreppan tekur tvö ár. Eftir tvö ár erum við farin að sjá vöxt. Það er sá lærdómur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur dregið af þeim rúmlega 130 kreppum þar sem hann hefur komið til aðstoðar. Menn spáðu því að við værum farin að upplifa hagvöxt á þeim tíma sem við lifum í dag. En staðreyndin er sú að allar hagvaxtarspár eru fallandi fyrir framtíðina, fyrir árið 2011. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlaði að ljúka starfi sínu á Íslandi haustið 2010 en staðreyndin er sú að hann mun verða hér a.m.k. fram eftir næsta ári ef ekki fram á næsta haust, þ.e. þann hámarkstíma sem hægt er að vera í samstarfi við sjóðinn.

Svarið við spurningu hæstv. ráðherra er auðvitað þetta: Já, það var í kortunum að hægt væri að skapa hér vöxt á tveimur árum. Já, það var lagt upp með það í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins að væri gripið til ákveðinna aðgerða (Forseti hringir.) yrði hægt að skapa sátt á vinnumarkaði og hefja nýja lífskjarasókn. En það hefur tafist og það hefur tafist vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.