139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði einmitt mjög grannt á hv. þingmann. Mér taldist svo til að hann vildi ekki skerða barnabætur. Hann vildi ekki skerða vaxtabætur. Hann vildi hækka grunnfjárhæðir bótakerfanna. Hann vildi hækka persónufrádrátt. Hann vildi hækka endurgreiðslur á húshitunarkostnaði og marga, marga fleiri liði. Vill þá ekki hv. þingmaður fara að leggja saman og svara spurningunni: Hvað svo? Á að afla tekna á móti eða ætlar hann að sætta sig við meiri halla á ríkissjóði? Hvað þýðir það? Það eru vaxtagreiðslur á morgun. Er ekki nóg að missa 15, 16, 17% af heildartekjum ríkisins í vaxtakostnað á þessu ári? Erum við sátt við að missa það hlutfall lengra upp?

Það er einmitt ábyrg velferðarstjórn sem nær tökum á hinum opinberu fjármálum og kemur þeim í lag vegna þess að engir skilja það betur en hugsandi vinstri menn að það verður engin velferð í landinu með gjaldþrota ríkissjóð, það verður það ekki. Það er heldur ekki ábyrgt að taka bara lán og henda þessum reikningi inn í framtíðina. Börnin okkar sitja uppi með nóg út af þessu hruni (Gripið fram í.) þó að því verði ekki bætt við að reka hérna óábyrga stefnu í ríkisfjármálum á komandi árum.