139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef þessir hlutir væru allir gerðir samt, eins og fólst í máli hv. þingmanns, eru það … (BJJ: … rétt með?) Já, ég tel mig hafa gert það, ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður væri á móti því að draga úr kostnaði í vaxtabótum, á móti því að draga úr kostnaði í barnabótum. Hann vildi hækka grunnfjárhæðir bótakerfanna, var það ekki? (Gripið fram í.) Það var gagnrýnt mjög hart að það skyldi ekki vera hækkað. (BJJ: Sagðirðu ekki stórhækkað?) Og sömuleiðis varðandi skattleysismörkin. Þetta heyrði ég hv. þingmann allt segja og nokkra liði í viðbót.

Ég tel að þrátt fyrir allt og miðað við þær erfiðu aðstæður sem við erum að glíma við hafi tekist þolanlega að reyna að verja kjör hinna lakast settu í samfélaginu. Við höfum ekki farið inn í skerðingar grunnfjárhæða bótakerfanna eins og mörg lönd í kringum okkur hafa verið að gera. Við höfum að vísu ekki getað verðbætt þær, það er rétt. Okkur hefur tekist, m.a. með breytingum í skattkerfinu, að hlífa sannanlega hinum tekjulægri við skattahækkunum. Það sýnir álagningin í sumar og er alveg ljóst, enda kemur það á daginn að hlutfallslega hefur tekist best að verja kjör hinna tekjulægri í samfélaginu. Það er staðreynd. Er það ekki þannig sem einmitt velferðarstjórn (Forseti hringir.) vill hafa þetta, að reyna að hlífa þeim sem mest við byrðum sem lakast eru settir en láta hina bera meira, svo sem eins og ríkasta fólkið í landinu?