139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi þekki ég ekki þetta tilvik. Í öðru lagi er það ekki mitt hlutverk, þó að ríkið sé að leggja fjármagn eða lána kröfur í fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða eða fjármálafyrirtækja, að segja þeim fyrir verkum. Því verða stjórnendur og þeir sem með málin fara á hverjum stað að bera ábyrgð á. Þannig viljum við hafa það. Það er ekki þannig að ég eigi að vera í því á kvöldin að ákveða vaxtakjör sparisjóðanna þó ríkið hafi lagt eitthvað fé í þá eða lánað inn í þá kröfur. Aldeilis ekki. Hitt er alveg ljóst að eitt af því sem fyrir okkur vakir með því að endurfjármagna bankakerfi og sparisjóði er að þessar stofnanir séu í færum til að sinna viðskiptavinum sínum og aðstoða heimili og fyrirtæki eftir því sem hægt er gegnum erfiðleika. Það er beinlínis skrifað inn í eigandastefnuna sem ríkið hefur mótað sér í þessum efnum. Við þurfum líka að réttlæta það og útskýra fyrir skattgreiðendum hverra fé við erum að ráðstafa. Hver er megintilgangurinn? Hann er sá að við höfum fjármálaþjónustu. Í ljósi þess og með vísan til þess sem við ætlumst til af bönkum og sparisjóðum við þessar aðstæður verð ég að segja að þetta hljómar ansi harkalega sem hv. þingmaður nefndi um hækkun á einu bretti á lánum í fullum skilum úr 2% í 7%, þ.e. álagið ofan á vexti, ef það er það sem þarna er á ferðinni. (Forseti hringir.)