139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sjónarmiðið mismunun — sjálfsagt getur hv. þingnefnd farið yfir það, en ég hygg að ekki sé um það deilt að stjórnvöldum er heimilt að meðhöndla í skattalegu tillit með mismunandi hætti stórfyrirtæki annars vegar og lítil eða meðalstór fyrirtæki hins vegar. Það er vel þekkt og gerður er greinarmunur á slíku í ýmsum tilvikum. Fyrir því geta verið fullgild efnisleg rök að litlar stofnanir séu öðruvísi settar í þessum efnum. Kerfisáhættan þar er minni og áhættan á því að ríkið lendi í verulegum fjárbyrðum vegna þeirra er mun minni og viðráðanlegri. Hér er um vissan varúðarskatt að ræða eins og hann er hugsaður almennt í löndunum þar sem verið er að innleiða þetta. En í okkar tilviki er skaðinn náttúrlega þegar skeður í svo miklum mæli að þess vegna er valið að láta tekjurnar renna í ríkissjóð fyrst um sinn og langstærstur hluti kostnaðarins hlaust auðvitað af vandræðum stórra fjármálastofnana.

Varðandi innlánstryggingakerfið veit ég ekki betur en komið sé fram frumvarp um að loka gamla kerfinu og leggja af stað með sjóðssöfnun í nýju innlánstryggingakerfi sem smátt og smátt myndi þá tryggingu fyrir innstæðum. Það er alveg ljóst að þar verða ekki miklir fjármunir til staðar strax fyrstu árin, en þeir byggjast upp og iðgjöldin verða nokkru hærri en þau eru í núverandi kerfi, auk þess sem slíkir sjóðir hafa þá heimildir eins og ætlunin er til að taka lán ef á þarf að halda og annað slíkt. Það er mikilvægt að leggja af stað og byrja að mynda tryggingu með framtíðartekjustofna að baki þannig að tímabundið gæti slíkur sjóður mætt einhverjum áföllum umfram eigið fé.

Við skulum nú vona að þannig sé að takast til almennt í endurreisn banka og fjármálafyrirtækja að ekki eigi að vera stórhætta á áföllum þar alveg á næstu árum enda leggja allir af stað með nokkuð hátt eiginfjárhlutfall og borð fyrir báru í þeim efnum með hliðsjón af þeirri óvissu sem er auðvitað fram undan. Það er bara (Forseti hringir.) liður í því sem við þurfum að takast á við hér að koma okkur út úr núverandi ástandi og leggja grunn að einhverjum heilbrigðum og venjulegum reglum í þessum efnum.