139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er raunar ekki sá fyrsti sem hefur látið sér detta þetta í hug. Ég hef auðvitað spurt að því og velt því fyrir mér hvort við hefðum getað farið þá leið að ríkið hefði einfaldlega ábyrgst lágmarkstrygginguna og við hefðum þess vegna getað látið banka, bæði gamla og nýja, halda áfram að greiða upp í herkostnaðinn sem áfallinn er og ekki síst Icesave.

Svarið er væntanlega á þann veg að okkur er það ekki heimilt. Við höfum undirgengist það á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að innleiða sambærilegt innstæðutryggingakerfi og Evrópureglurnar ganga út frá. Það kerfi á að vera sjálf-fjármagnað. Fjármálastofnanirnar eiga sjálfar að greiða iðgjöldin. Menn eiga nú að þekkja deiluna um það hvort þarna sé ríkisábyrgð eða ekki ríkisábyrgð. Ég held einfaldlega að það sé mjög ólíklegt að við hefðum fengið það samþykkt að fara þá leið jafnvel þó að við hefðum viljað reyna það.

Við getum auðvitað sagt að það frumvarp sem hér er sé einhvers konar ábyrgðargjald ef við viljum kalla það það, eða eftiráskattur vegna kostnaðar sem ríkið hefur fengið á sig af fjármálahruninu. Mér finnst þó mikilvægt að halda til haga þeim eiginleikum þess líka að í fyllingu tímans geti það orðið að einhvers konar viðbúnaðarsjóði sem er þá algerlega óskyldur innstæðutryggingakerfinu, sem tekin eru fyrir sjálfstæð iðgjöld og fjármálakerfið á að borga sjálft. Hitt væri viðbúnaðarsjóður sem stjórnvöld vildu hafa til þess að eiga á sínum snærum möguleikann á því að bregðast við áföllum sem hafa kostnaðaráhrif á hið opinbera.