139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál mun að sjálfsögðu þurfa að fara til nefndar og fá þar ítarlega skoðun. Allar forsendur þess og aðrar fjárhæðir eða gjaldahlutföll í frumvarpinu verða eflaust tekin til skoðunar.

Mig langar aðeins að ræða þær meginforsendur sem hæstv. ráðherra kynnir hér til sögunnar, nefnilega þá að við samningu þessa frumvarps hafi m.a. verið horft til þróunar í nágrannaríkjunum og að við séum að fylgja því fordæmi sem þar er að finna. Við þetta verður að gera þá athugasemd að t.d. í Svíþjóð, þar sem menn eru í raun og veru frumkvöðlar að þessum hugmyndum, er grundvallarhugsunin sú að gera þetta til að vera reiðubúnir til að takast á við næstu fjármálakrísu sem menn ganga út frá að lenda í einhvern tímann í framtíðinni. Síðasta fjármálakrísan er ekki enn komin þangað. Fjármálakerfi fara í gegnum krísu reglulega. Það mun gerast einhvern tímann í framtíðinni. Með slíka framtíðarsýn í huga hefur kerfinu verið komið á í Svíþjóð. Svíar taka sem sagt 0,018% til að byrja með af skuldum fjármálafyrirtækja, að frádregnu eigin fé, til hliðar á ári og leggja í sjóð. Að baki hugmyndinni er langtímasýn og stendur til að byggja upp sjóð sem yfir lengri tíma, á um það bil 15 árum, mun innihalda um 2,5% af landsframleiðslu þeirra.

Það er það sem ég sakna í þessu máli. Maður fær á tilfinninguna að undir þessu flaggi sé einfaldlega verið að tefla fram máli sem er ekki annað en tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Hér er verið að finna enn eina leið til að ná í einn milljarð fyrir ríkissjóð sem á að standa undir rekstri hans. Það er látið í það skína að hugsanlega verði seinna hægt að breyta málinu í takt við þær hugmyndir sem menn vísa til í greinargerð. En mér finnst að ef innleiða á skatt og gjöld á fjármálastarfsemi á Íslandi eigi menn að hafa skýr markmið frá upphafi í því sambandi.

Ég vil alls ekki útiloka að það sé skynsamlegt að stofna til sjóðs af því tagi sem við ræðum. Þetta er í eðli sínu ekkert mjög frábrugðið því sem á við um innstæðutryggingarsjóðinn, nema hugmyndin í Svíþjóð er að sjóðurinn mæti áætluðum kostnaði vegna fjármálaáfalls. Það jafngilti því ef við notuðum sömu viðmið og Svíar að við stefndum að því að eiga í sjóði um það bil 40 milljarða sem fjármálakerfið hefði lagt til hliðar.

Ef við settum okkur sama markmið og Svíar værum við að leggja upp í 15 ára ferðalag þar sem við stefndum að því á þeim tíma, við gætum svo sem alveg gefið okkur 20 ár í það, að taka til hliðar um það bil þessa fjárhæð, þá horfi ég bara til þess hlutfalls af landsframleiðslu sem Svíar horfa til. Það er ekki verið að gera það heldur er gengið út frá því að skattinum verði komið á og gjaldið fari ekki til hliðar í neina sjóðasöfnun þar sem hægt verði að benda á að fjármálafyrirtækin hafi þurft að sæta þessari álagningu en njóti á móti ávinningsins af því að sjóðurinn sé til — nei, heldur á á grundvelli frumvarpsins að nota þennan milljarð beint í rekstur ríkisins, síðan er beðið með fyrir seinni tíma að ákveða hver framtíð gjaldsins verður. Þetta hlýt ég að gagnrýna. Það væri miklu hreinlegra að leggja bara strax af stað með þessa hugmyndafræði. Ef menn vísa til hennar þurfum við að taka umræðuna hér og nú um hvort það er skynsamlegt að fylgja þessu fordæmi og hefja þessa sjóðasöfnun strax.

Ef við ætlum að leggja nýjar álögur á fjármálastarfsemina til að taka til baka hluta af þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna fjármálaáfallsins skulum við bara vera með frumvarp á þeim forsendum í þinginu. Það fer ekki vel á því að þessu tvennu sé blandað saman að mínu áliti.