139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

196. mál
[18:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina með málinu og mun sem formaður efnahags- og skattanefndar beita mér fyrir því að við tökum málið til gagngerrar umfjöllunar í þeirri aðventugleði sem jafnan ríkir í efnahags- og skattanefnd á þessum tíma árs þegar skattamálin fyrir komandi ár skella á nefndinni.

Ég held að við eigum kannski að breyta því verklagi sem neyðin núna í ár og í fyrra hefur gert að verkum, að við höfum farið í þessar skattaákvarðanir tiltölulega skömmu fyrir áramót. Það færi betur á því að við fengjum þau mál fyrr til umfjöllunar og gætum haft skipulagðari og betur undirbúna umfjöllun um þau hér í þinginu. Því er ekki að neita að eins og málum hefur verið háttað í þessum erfiðu aðstæðum sem við erum í eru náttúrlega mörg mál sem skella inn til umfjöllunar með skömmum fyrirvara.

Málið sem hér er uppi held ég hins vegar að sé bæði jákvætt og horfi til framfara. Það tekur mið af þeirri alþjóðlegu þróun sem er í skattaumræðunni og gott að gert sé ráð fyrir að málið verði tekið til endurskoðunar fljótlega því að breytingar eru örar og auðvitað eru líka ýmsar hugmyndir um frekari skattlagningar í þessum geira, eins og til að mynda gjaldtökur á einstakar aðgerðir í fjármálaviðskiptum til þess einmitt að draga úr áhættusækni. Ekkert er eðlilegra en að kalla eftir því að þessi geiri atvinnulífsins leggi til þeirra erfiðu verkefna sem við fáumst nú við eftir bankahrunið. Ég verð að játa að mér finnst það nokkuð sérstök hugmynd hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að nýta þær tekjur til að leggja í sjóð fyrir næsta bankahrun þegar við höfum ekki enn þá lokið við að borga það sem varð nýlega. Þess vegna held ég að við þær aðstæður sem við erum núna í sé ósköp eðlilegt að tekjurnar renni í ríkissjóð og séu ekki settar í sjóð fyrir næsta bankahrun fyrr en við erum búin að gera þetta hrun upp.

Það er auðvitað þannig að banka- og fjármálastarfsemi í landinu hefur notið ýmiss konar sérstöðu. Við getum í þeim verkefnum sem við eigum fram undan í ríkisfjármálum líka horft til frekari aðgerða á þessu sviði. Þannig er það t.d. með bankana og fjármálafyrirtækin að þau eru undanþegin virðisaukaskatti af þjónustu sinni. Í því felst auðvitað verulegt hagræði fyrir bankana, bæði tekjulega því að þeir þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af þjónustutekjum sínum og sömuleiðis í allri framkvæmdinni.

Svona er þessu háttað víða um lönd. Danir, okkar ágæta nágrannaþjóð, hafa til að mynda lagt gjöld á fyrirtæki, ekki bara banka, heldur fyrirtæki og stofnanir sem njóta undanþágu frá virðisaukaskatti. Önnur opinber gjöld sem kæmu í raun og veru í stað virðisaukaskattsfrelsis gætu gefið allnokkrar tekjur í ríkissjóð okkar. Ég nota því tækifærið og minni hæstv. fjármálaráðherra á að þegar þarf að taka til nýrra úrræða á nýju ári gæti það verið eitthvað til að huga að.