139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ályktun flokksráðsfundar VG um aðildarstyrki ESB.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er staðreynd máls að Evrópusambandið gengur út frá því að umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu hafi áhuga á því að komast í Evrópusambandið. Það er ekki gert ráð fyrir því fyrirkomulagi sem íslenska ríkisstjórnin býður upp á, að menn sækist eftir aðild án þess að neitt sé með því meint eins og skýrt kemur fram í ályktun þess fundar sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. að annar stjórnarflokkurinn vill alls ekki ganga í Evrópusambandið.

Spurningin sem upp úr stendur er þessi: Er eitthvað nýtt að frétta? Hvað breyttist um helgina? Hér segja stjórnarþingmenn úr Vinstri grænum að niðurstaða fundarins kalli á nýja nálgun sem hlýtur þá að leiða til einhverra breytinga frá því sem við höfum horft á að undanförnu. Eða er það kannski þannig eins og mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra vera að segja að það sé ekkert nýtt að frétta, það verði haldið áfram á sömu braut?