139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ályktun flokksráðsfundar VG um aðildarstyrki ESB.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi styrkjamálin höfum við nú þegar sett þau í endurskoðun. Það varð um það samkomulag í haust að það ferli sem þá var í gangi yrði stöðvað og farið rækilega yfir það hvaða stefnu við ætlum að móta gagnvart þessum styrkjum. Í ályktun okkar er talað um að taka ekki við styrkjum sem gagngert miða að því að undirbúa aðild og það þýðir að við áskiljum okkur rétt til að meta það í hverju og einu tilviki hvers konar verkefni eru á ferðum og til hvaða þarfa þau eru ætluð.

Við erum náttúrlega að árétta þann skilning okkar og afstöðu að það samrýmist ekki því ferli sem lagt var upp með að gera breytingar fyrir fram. Við ætlumst til þess að viðræðurnar séu á þeim grunni sem lagt var upp með. Þetta eru náttúrlega samningaviðræður vegna þess að það er væntanlega um eitthvað að semja, annars væru menn ekki að fara í þær. Auðvitað hlýtur afstaðan að ráðast líka af því hvernig til tekst í þeim efnum þannig að þó að Evrópusambandið gangi út frá því að þeir sem sækja um hafi áhuga á því að ganga þar inn, já, þá gera þeir sér væntanlega grein fyrir því að það hlýtur (Forseti hringir.) að vera háð þeim samningum líka sem nást eða nást ekki um málið. Ég hygg að þetta sé minna frábrugðið því sem var t.d. í tilviki Noregs þar sem minnihlutastjórn sótti um aðild að Evrópusambandinu, hafði ekki einu sinni fullan stuðning í sínum flokki til þess (Forseti hringir.) þannig að það er kannski fátt nýrra undir sólinni en menn halda ef menn hafa áhuga á því að kynna sér söguna.