139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

AGS og fjármögnun Íbúðalánasjóðs.

[15:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns gera athugasemd hér við fundarstjórn forseta því að hér hefur hæstv. fjármálaráðherra ítrekað farið fram úr tíma sínum án þess að fá ávítur, ég vil koma því hér áleiðis. Það er greinilega ekki sama hver talar hér á þeim grunni.

Ég er með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um Íbúðalánasjóð og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs er nú orðið talsvert lægra en samrýmist langtímamarkmiðum sjóðsins, en miðað er við að lágmarkseiginfjárhlutfallið skuli vera yfir 5% samkvæmt reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, nr. 544/2004. Það er tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti að vera þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004, enda taldi bankinn þá að eiginfjárhlutfallið yrði 2,5% í lengri tíma en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fjármagn til að standa undir skuldbindingum sínum.

Vegna þess að í skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í byrjun október kemur fram að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum til á milli 30 og 45 milljarða kr. í lok ársins til að eigið fé sjóðsins fullnægi lágmarkskröfum langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Telur hæstv. fjármálaráðherra að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi ofuráherslu á þessa innspýtingu ríkisins til þess að það sé auðveldara að einkavæða Íbúðalánasjóð? Er gert ráð fyrir þessum greiðslum í fjárlögum 2011 eða fjáraukalögum og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt á það ofuráherslu í þessum viðræðum að Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) verði einkavæddur?