139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

AGS og fjármögnun Íbúðalánasjóðs.

[15:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta var að sjálfsögðu ekki svar. Við vitum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett fram þá kröfu að setja á milli 30 og 45 milljarða kr. inn í Íbúðalánasjóð frá íslenska ríkinu. Það leiðir af sér að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs fer yfir 8% sem er akkúrat það hlutfall sem lánastofnanir höfðu hér fyrir hrun til þess að standa undir rekstri sínum þrátt fyrir að nú hafi verið farið fram á að þetta hlutfall eigi að vera 16% í nýju bönkunum.

Í sjálfu sér er ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé neikvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar. Þess vegna skil ég ekki þetta svar sem hæstv. fjármálaráðherra kemur með því að um leið og ríkissjóður er kominn með afgerandi hætti að Íbúðalánasjóði er það farið að brjóta EES-samninginn ef hann leggur í ríkari mæli meira fé til sjóðsins en gerist í nágrannalöndunum.

Því spyr ég á ný: Hefur það komið til tals á milli hæstv. fjármálaráðherra og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Forseti hringir.) að þessi fjárkrafa sjóðsins sé komin til vegna þess að til standi að einkavæða Íbúðalánasjóð?