139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

sala Sjóvár.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það voru fréttir í morgun af söluferli Sjóvár tryggingafélagsins sem hófst í janúar. Eftir því sem ég best veit var það opið og gagnsætt. Það byrjaði 18. janúar og er búið að standa í 10 mánuði. Þann 22. október átti Seðlabankinn að koma með svar eftir að tilboðin höfðu verið opnuð en bað, eftir því sem fjölmiðlar greina frá, hæstbjóðanda að bíða í eina eða tvær vikur. Núna er 22. nóvember og samkvæmt heimildum hefur hæstbjóðandi ákveðið að segja sig frá ferlinu vegna þeirra vinnubragða sem hér hafa verið viðhöfð, þ.e. hann hefur ekki fengið neitt svar við tilboðinu.

Ég vildi því spyrja hæstv. fjármálaráðherra í fyrsta lagi hvort hann hafi haft einhverja aðkomu að þessu máli. Í öðru lagi, og það hlýtur hæstv. ráðherra að vita vegna þess að þetta hefur verið í fjölmiðlum og menn hafa verið meðvitaðir um þetta, af hverju þessu tilboði hefur ekki verið tekið, af hverju ekki hefur verið skrifað undir. Og í þriðja lagi, úr því að það hefur ekki verið gert: Á að selja félagið, eða eru hugmyndir um það, til þeirra sem buðu ekki hæst? Það væri kannski ágætt að fá að vita, ef svo er, af hverju hæsta tilboðinu var ekki tekið eða réttara sagt af hverju var beðið þangað til þeir sem voru með hæsta tilboðið gáfust upp á að bíða.