139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

sala Sjóvár.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í grunninn er það hér á ferðinni að þessi áhugasami aðili, kaupandi, hætti við og tilkynnti það. Var það ekki í gær frekar en í morgun? (Gripið fram í: Og hvers vegna?) Það eru fyrstu fréttir sem ég fæ af því máli. Ég held að það væri í fyrsta lagi ástæða til að spyrja hann að því og í öðru lagi þá Seðlabankann sem annast alfarið um framkvæmd þessa máls, þ.e. eignarhaldsfélag á vegum hans, hvað það var sem tók svona langan tíma í athugun á þessu máli. Seðlabankinn þurfti að sjálfsögðu að staðfesta kaupin og var ekki búinn að því þegar kaupandinn dró sig frá málinu. (GÞÞ: Af hverju er það?) Ja, við skulum bara fá það upp, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) ég hef ekki upplýsingar í höndunum um það eins og ég reyndi að segja — (TÞH: Komstu þar hvergi nærri?) Ha? (Gripið fram í.) Óskaplega — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Óskaplega langar nú litlu drengina í þetta, að koma mér inn í einhvern gálga. Nei, ég hafði engin bein afskipti af þessu máli (Gripið fram í: Engin?) og það er alllangt síðan fjármálaráðuneytið var síðast almennt upplýst um það hvernig gengi að vinna úr þessum eignum (Forseti hringir.) sem slíkum. Við erum að sjálfsögðu ekki dagsdaglega að fylgjast með því af því að Seðlabankinn annast um framkvæmdina. Það er verkaskipting í gangi milli fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans í þessum efnum og það hefur gengið vel, (Forseti hringir.) er hagkvæmt og praktískt fyrirkomulag að halda utan um og annast úrvinnslu allra krafna ríkisins á einum stað. Ég tel að það hafi gefist vel.