139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vinnumarkaðsmál.

[15:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra hefur verið vinsæll í dag og mig langar að breyta aðeins út af því. Mig langar að spyrja hæstv. félags-, tryggingamála- og heilbrigðisráðherra út í vinnumarkaðsmál.

Í Viðskiptablaðinu 18. nóvember kemur fram í viðtali við forseta ASÍ að ekki verði samið án ríkisstjórnarinnar í næstu kjarasamningum og það kemur líka fram að samskipti við ríkisstjórnina hafi gengið illa og að það sé trúnaðarbrestur þar á milli. Í ljósi þessara orða langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um aðkomu ríkisstjórnarinnar að viðræðum eða þreifingum við aðila vinnumarkaðarins. Eiga einhverjar slíkar viðræður sér stað og hvað er það helsta sem ríkisstjórnin er þá að færa inn á það borð?

Nú er öllum ljóst að aðilar vinnumarkaðarins hafa hvor með sínum hættinum í rauninni sagt að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við það sem samið var um og lofað í hinum svokallaða stöðugleikasáttmála. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvort ríkisstjórnin sé með ný eða önnur útspil inn í þær viðræður sem eiga sér stað núna.

Hin hliðin á þessum peningi er sú að ef ríkisstjórnin hefur ekki átt neinar viðræður við aðila vinnumarkaðarins, er þá ekki tími til kominn að fara í þær? Við getum að sjálfsögðu ekki verið með samninga í uppnámi ef það er beðið eftir því að ríkisstjórnin komi með mál inn í þær viðræður til að leysa, sýni á sín spil hvort sem það er varðandi skattamál eða það sem hún ætlar að gera varðandi atvinnumál, liðka til og þess háttar. Því óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi um þessa stöðu og aðkomu ríkisstjórnarinnar ef einhver er.