139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vinnumarkaðsmál.

[15:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög undarlegt svar við spurningunni um hvað ríkisstjórnin er að gera, þ.e. hvort hún er að tala við aðila vinnumarkaðarins. Hæstv. ráðherra ákveður að reyna að snúa því í þann farveg að klukkutíma eða eins og hálfs tíma langur fundur með stjórnarandstöðunni, þar sem viðrað var hvort stjórnarandstaðan vildi ræða vinnumarkaðsmál, sé upphaf og endir þess hvort ríkisstjórnin komi beint að því að leysa kjarasamninga. Það er alveg með ólíkindum.

Það væri mjög forvitnilegt á einhverjum tímapunkti að fara yfir þær hugmyndir sem voru reifaðar á þessum fundi þar sem stjórnarandstaðan, þ.e. fulltrúar Framsóknarflokksins, lagði fram tillögur inn á þetta borð sem maður hefur ekki enn þá heyrt hvort ríkisstjórnin hafi kynnt sér eða ekki. En það er verið að spyrja hvað ríkisstjórnin sé að gera til að leggja í púkkið. Ef hæstv. félagsmálaráðherra er ekki á þeim vettvangi er það bara að koma í ljós og ég ætla þá að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því í næsta fyrirspurnatíma (Forseti hringir.) hvernig þetta gangi fyrir sig.