139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

skattaleg staða frjálsra félagasamtaka.

140. mál
[15:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svör. Ég tel nauðsynlegt að hefja þegar vinnu við að móta heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka. Ég held að það sé löngu þarft dæmi. Í umræðunni á undangengnum árum, þegar góðhjartaðir borgarar hafa verið að arfleiða félagasamtök sem jafnvel þjónusta stóran hóp Íslendinga sem standa höllum fæti, velta menn fyrir sér hvort sanngjarnt sé að þau félagasamtök borgi sérstakan skatt til ríkisins af fjármunum sem renna til hjálpar og aðstoðar hundruðum eða þúsundum fjölskyldna. Ég mundi sérstaklega vilja fara fram á að erfðafjárskatturinn yrði tekinn til sérstakrar endurskoðunar þegar góðborgarar þessa lands (Forseti hringir.) eru að arfleiða mikilvæg samtök að eigum sínum þannig að þau samtök þurfi þá ekki að greiða skatt af þeim fjármunum.