139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[15:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að fagna framkominni fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur í þessa veru. Þrekvirki hefur verið unnið hringinn í kringum landið við að koma upp mikilvægum búnaði á heilbrigðisstofnunum og þarf svo sem ekki að verja löngu máli í þá uppbyggingu sem verið hefur af hvötum einstaklinga og félagasamtaka og mikil prýði er af.

Horfa verður til þessa tækjabúnaðar í þeim aðgerðum sem nú eru fyrirhugaðar. Þar hefur afstaða mín verið mjög skýr. Við munum ekki geta lagt niður umdæmissjúkrahús hvað aðgerðir snertir og horfi ég þar til Ísafjarðar, Neskaupstaðar og Vestmannaeyja af eðlilegum ástæðum sem varða veðurlag og samgönguöryggi.

Ég tel jafnframt að við getum ekki ráðist inn á lyflæknissvið margra sjúkrahúsa (Forseti hringir.) úti á landi er varða lyflækningar. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að tryggja að þessi búnaður verði til staðar á þessum stöðum framvegis.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill benda hv. þingmanni á að klukkan virkar ekki en ræðutími hv. þingmanns er þegar liðinn, og aðeins rúmlega það. Þetta er ein mínúta sem er til ræðu.)

Frú forseti. Ég horfði hér á tímann, vissi ekki af öðru. Þakka fyrir að fá að hafa talað þó svona lengi.