139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[16:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra notaði ákveðið orðalag varðandi þær gjafir sem rætt er um, sem þessi félög hafa lagt til stofnananna, að það hafi yfirleitt verið gjafir sem félagasamtök og einstaklingar hafi fært stofnunum. Má skilja það þannig að komi til þess að þessi tæki verði óþörf vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu að þeim verði þá skilað til viðkomandi félaga þar sem þau hafi lagt til þessi tæki?

Mig langar að gera athugasemd við annað vegna þess orðalags sem hæstv. ráðherra notaði, en það er mjög kunnuglegt og er ættað úr heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að ekki sé verið að loka einu né neinu en það sé hins vegar stjórnendanna að spara. Ef ég skil það rétt, frú forseti, er eins og heilbrigðisráðuneytið varpi þar með því ábyrgðinni á þeim óvinsælu aðgerðum yfir á stjórnendur og starfsfólk stofnananna. Það finnst mér ekki stórmannlegt. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, það er orðalag sem ég kannast við úr heilbrigðisráðuneytinu, ekki endilega frá hæstv. ráðherra.

Ég fagna því að verið sé að endurskoða fjárlagafrumvarpið, (Forseti hringir.) vonandi allverulega.