139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svör hans og staðfestingu á því að það sé ekki ætlunin að fjarlægja þau tæki og tól sem gefin hafa verið viðkomandi stofnunum.

Ég bendi líka á að það eru sérstaklega kvenfélögin hringinn í kringum landið sem hafa verið mjög öflug í að styðja við heilbrigðisstofnanirnar. Þegar ég fór í gegnum þær tölur áðan náði ég ekki að minnast á að áætlað er í samantekt frá Kvenfélagasambandinu að á tímabilinu 1995–2005 hafi þau gefið um 500 millj. kr. eða um 50 milljónir árlega til heilbrigðisstofnana og er þá ekki talið með Kvenfélagið Hringurinn og þær miklu gjafir sem félagið hefur gefið Landspítalanum í mörg ár.

Gjafirnar voru gefnar til notkunar á viðkomandi stað, gjafabréfin voru mjög oft stíluð á viðkomandi stofnun. Svo ég nefni dæmi um það sjúkrahús sem sinnir heilbrigðisþjónustu í sveitarfélagi mínu, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, er fullyrt á vefmiðli Eyjafrétta að sú stofnun væri væntanlega hvorki fugl né fiskur tæknilega eða tækjalega séð ef ekki væri fyrir góðgerða- og líknarfélög, einstaklinga og fyrirtæki sem stutt hafa við þá stofnun. Samkvæmt Eyjafréttum hefur íslenska ríkið aðeins keypt eitt tæki sem notað er á sjúkrahúsinu, gamla röntgentækið — eitt tæki.

Hafa þarf í huga að sá kostnaður sem núna er í fjárlögum er ekki endilega raunkostnaður við að reka þessar stofnanir ef við ætlum að hunsa það framlag sem kemur frá íbúum á viðkomandi svæði, frá einstaklingum, frá líknarfélögum, frá fyrirtækjunum, vegna þess að þau vilja standa mynduglega að þessum stofnunum.