139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[16:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna um mikilvægi félagasamtaka og þeirra sem nefndir hafa verið í sambandi við að hlúa að heilbrigðisþjónustu í landinu. Við eigum ekki að gera lítið úr þeim og þau skipta mjög miklu máli. Það skiptir líka mjög miklu máli að íbúarnir standi vörð um þá þjónustu sem veitt er á hverjum stað og reyni að kalla eftir því að hún sé örugg og tryggi þá þjónustu sem menn vilja hafa.

Á sama tíma og ég segi það verðum við auðvitað að tryggja að við höfum efni á að veita þá þjónustu sem við veitum og reynum þannig að skilgreina sem allra best hvaða þjónusta er veitt á hverjum stað til þess að nýta best þá peninga sem við höfum. Það er einmitt undirstrikað í raunveruleikanum með því að segja að margir aðrir en ríkið hafi lagt til að við förum vel með peninga.

Varðandi hvernig við orðum hlutina, að það sé stjórnendanna að spara, er það rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að auðvitað verða Alþingi og ráðuneyti að bera ábyrgð á þeim fjárveitingum sem veittar eru hverju sinni til rekstrarins. Það má heldur ekki gleyma því að stjórnendur heilbrigðisstofnana eru ríkisstarfsmenn, þeir eru starfsmenn ráðuneytisins og heyra undir það, þeir eru hluti af stjórnsýslunni þegar kemur að framkvæmd varðandi heilbrigðismál á hverjum stað. Ég held að það sé ástæða til þess að undirstrika það.

Hér er um gríðarlegar upphæðir að ræða þegar við ræðum um heilbrigðismálin í heild. Við erum að tala um 97 milljarða kostnað á ári og talað er um að skera það niður um einhverja milljarða, sem vega gríðarlega þungt víða. Við skulum sjá hvernig okkur tekst að að dreifa því betur en gert var í fjárlagafrumvarpinu en það er ljóst að við getum ekki endurskoðað fjárlög íslenska ríkisins öðruvísi en að koma við þennan málaflokk eins og alla aðra.