139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

raforkuverð.

130. mál
[16:10]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina enda hefur áður komið fram í þessum sal að við deilum þeirri skoðun að við eigum að leita allra leiða til þess að jafna búsetuskilyrði fyrir landsmenn alla. Þarna er svo sannarlega verk að vinna einmitt í þeim málaflokki sem hv. þingmaður kom inn á í fyrirspurn sinni.

Af því að hv. þingmaður spyr hvort hægt sé að setja af stað starfshóp til þess að fjalla um þessi mál hefur ráðuneytið og sú er hér stendur haldið fundi með Samtökum ísl. sveitarfélaga í tengslum við niðurgreiðslu á rafhitun á köldum svæðum. Á síðasta fundi sem ég átti með þeim óskaði ég eftir því að við ættum nánari samvinnu á næstunni vegna þess að ljóst væri að við þyrftum að finna varanlega lausn á þessum jöfnunarmálum, svo sannarlega. Sú er hér stendur er ekki með neina allsherjarlausn tilbúna í því efni, slíkt gæti kostað töluverða fjármuni, en stefnumörkun þarf að koma til og hana tel ég best að vinna í samstarfi við sveitarfélögin sem búa við þessar aðstæður og sú vinna er að hefjast.

Fram kom að þar sem hitaveitu nýtur ekki við hefur ríkið niðurgreitt kostnað við rafhitun og þá hafa framlög til hinna beinu niðurgreiðslna numið tæplega milljarði króna undanfarin ár en fjárveitingarliðurinn hefur engu að síður verið hærri vegna þess að fleiri þættir hafa verið kostaðir af þessum sama lið. Upphæðin í liðnum segir því ekki allt um beinu niðurgreiðslurnar sjálfar. Þó að liðurinn sé rúmlega 1,1 milljarður kr. á þessu ári og ætlunin sé að skera hann niður í 974 milljónir á næsta ári er í raun og veru verið að strípa hann algjörlega niður í beinar niðurgreiðslur. Það er ætlun okkar í þessu efni og við erum að fara yfir það með Samtökum ísl. sveitarfélaga á köldum svæðum og það er ætlun okkar að verja lögheimilin eins og kostur er í þessu sambandi, þannig að það er algjörlega klárt.

Varðandi þann mikla niðurskurð á fjárveitingum sem þarf að ráðast í og verið er að fara í á fjárveitingum vegna niðurgreiðslna til húshitunar var lögð mjög mikil áhersla á það í ráðuneytinu í tengslum við vinnu að fjárlagatillögum að standa vörð um beinar niðurgreiðslur. Til þess að koma til móts við þann niðurskurð sem fyrirsjáanlegur er hef ég lagt áherslu á eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi er heilmikil vinna óunnin í fræðslu og kynningu á almennum leiðum til orkusparnaðar.

Í öðru lagi þarf að ráðast í veruleg átaksverkefni til endurbóta á húsnæði, svo sem endurglerjun og bætta einangrun, og er það von mín að verkefninu Allir vinna, sem kynnt var á þessu ári, sem fólst í því að endurgreiðsla á virðisaukaskatti gæti komið þarna inn í, verði haldið áfram á næsta ári.

Í þriðja lagi þarf að auka fræðslu og leiðbeiningar varðandi notkun og uppsetningu annarra staðbundinna leiða til þess að hita heimili og þar reynast t.d. mjög vel víða svokallaðar varmadælur. Nefna má að á Hallormsstað hafa menn farið í viðarkurlið sem gefst gríðarlega vel á þeim stað þó að þessar ólíku aðferðir geti kannski ekki átt við alls staðar, það er ekki hægt að heimfæra þær auðveldlega eða flytja þær auðveldlega á milli landshluta en engu að síður eru þarna enn ónýtt tækifæri.

Síðan hef ég lagt áherslu á að jöfnuður innan niðurgreiðslukerfisins verði aukinn þannig að við náum betur þeim markmiðum sem felast í því að jafna búsetuskilyrði.

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að með auknum orkusparnaði má draga úr þörf fyrir niðurgreiðslu rafhitunar húsnæðis og til að koma til móts við þá sem verða fyrir skerðingu á niðurgreiðslum hefur ráðuneytið sett af stað verkefni sem snýr að orkusparnaði og orkunýtni. Áfram er gert ráð fyrir að veittir verði styrkir til orkusparnaðarverkefna eins og Orkusetrið hefur veitt hingað til og ég veit að hv. þingmaður þekkir ágætlega.

Ráðuneytið hefur hafið kynningarátak á leiðum til orkusparnaðar almennt bæði fyrir fyrirtæki og heimili og er m.a. stefnt að því að gera upplýsingar um orkusparnað aðgengilegri, t.d. með því að efla heimasíður með upplýsingum og koma upp gjaldfrjálsu símanúmeri þannig að hvert og eitt heimili sem býr við þessar aðstæður geti fengið persónulega þjónustu og ráðgjöf varðandi hvað menn geti gert í þessum málum á hverjum stað.

Virðulegi forseti. Það er því tvennt í gangi, annars vegar orkusparnaðarverkefni og hins vegar heildstæð stefnumörkun sem ég vonast svo sannarlega til (Forseti hringir.) að við getum unnið hratt og örugglega þannig að þessi heimili fái varanleg svör sem allra fyrst.