139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

raforkuverð.

130. mál
[16:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Við skulum þó hafa eitt í huga þegar við fjöllum um þessar niðurgreiðslur og niðurskurðinn sem er að verða á þeim núna, niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar eru u.þ.b. fimmtungur af fjárlagalið iðnaðarráðuneytisins. Það er kannski ekki óeðlilegt þegar gerð er krafa um mikinn niðurskurð á fjárlagaramma ráðuneytisins að þessi liður verði fyrir barðinu á honum vegna hlutfallslegrar stærðar sinnar.

Við tökum þetta mjög alvarlega og það er líka mikilvægt að ég nefni það hér, af því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fjallaði um jarðhitaleitina og að menn færu þá hugsanlega í niðurskurð á kostnaði hennar, að stóru átaki í jarðhitaleit er nýlokið, þ.e. mikið átak var gert í því og menn náðu býsna langt með það víða, og fínum árangri. Enn er nokkrum verkefnum á því sviði ólokið þó að þau séu fjármögnuð þannig að það er von mín að þrátt fyrir þennan niðurskurð á liðnum núna eigum við eftir að sjá áframhaldandi verkefni á því sviði.

Hv. þingmaður talaði um að hann vildi fá ákveðnari svör um starfshóp. (Gripið fram í.) Sú sem hér stendur vinnur með þeim hætti að hún vill gjarnan eiga samráð og þess vegna er ég í samræðum við Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum. Ef samráðið leiðir til þess að menn telji þann vettvang ekki duga til að ljúka þessu máli, að menn vilji frekar setja niður starfshóp, verður það svo. En vonandi tekst okkur, án þess að þurfa að setja sérstakan starfshóp á laggirnar, að ljúka þessu með þeim. Ég held að það sé aðalatriðið.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hér komi líka fram að þetta er ekkert nýtt vandamál. Lífskjarajöfnun er stöðugt verkefni og niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar er kerfi sem hv. þingmaður þekkir vel frá því að Framsóknarflokkurinn fór með iðnaðarráðuneytið. (Gripið fram í.) Þetta (Forseti hringir.) er eilífðarverkefni og vonandi tekst okkur sem allra fyrst að koma okkur hreinlega út úr niðurgreiðslukerfi og inn í varanlegt kerfi sem byggir þá á þessari jöfnun.