139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

neyslustaðall/neysluviðmið.

127. mál
[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort þess megi vænta að ríkisstjórnin noti neyslustaðal eða neysluviðmið í samræmi við tillögur sem fram komu í skýrslu sem unnin var á vegum viðskiptaráðuneytisins í október árið 2006.

Því er til að svara að neysluviðmið er nú í vinnslu hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu og fyrirhugað er að þeirri vinnu ljúki í desember. Ákveðið var á síðastliðnu ári að flytja þetta verkefni frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins þar sem velferðarvaktin hefur málið nú til umfjöllunar. Velferðarvaktin kallaði til fjölda sérfræðinga þar sem tekin var umræða um neyslu- og framfærsluviðmið. Í framhaldi af því var ákveðið að hefja vinnu við gerð neysluviðmiðs. Segja má að þessi vinna eigi best heima í félags- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem hér er fjallað um framfærslu fólks og afkomuöryggi. Sú vinna sem fer nú fram við gerð neysluviðmiðs byggir í meginatriðum á tillögum sem fram komu í þeirri skýrslu sem fyrirspyrjandi vitnar til og unnin var á vegum viðskiptaráðuneytisins og kom út í október árið 2006. Í skýrslunni kom fram að gerð neysluviðmiðs á Íslandi væri vel framkvæmanlegt og það skyldi byggjast á upplýsingu neyslukönnunar Hagstofu Íslands.

Sá rökstuðningur fyrir setningu neysluviðmiðs sem byggt var á í skýrslunni var m.a. vinnusparnaður hjá opinberum aðilum og fjármálastofnunum, minni útlánatap hjá fjármálastofnunum vegna betra viðmiðs, minni kostnaður vegna vanskila sökum bættrar fjármálaráðgjafar og skilvirkari og markvissari ákvarðanataka ríkis- og sveitarfélaga vegna málefna sem varða fjármál einstaklinga og heimila í landinu.

Einnig gegnir neysluviðmið mikilvægu hlutverki gagnvart almenningi sem getur skoðað kostnað við eigin neyslu og borið saman við opinbert neysluviðmið á hverjum tíma. Neysluviðmið mun því gagnast jafnt almenningi sem þjónustuaðilum og stjórnvöldum.

Síðan er spurt hvort fyrirhugað sé að endurvekja hugmyndina um að neyslustaðall/neysluviðmið nái til allra opinberra aðila sem byggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðum.

Því er til að svara að unnið er að því að þróa hóflegt neysluviðmið sem er nothæft fyrir íslensk heimili. Samstarfsaðilar og þátttakendur í vinnunni eru m.a. embætti umboðsmanns skuldara, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Könnuð verði áhrif fjölskyldugerða á útgjöld í einstökum útgjaldaflokkum og áhrif búsetu. Neysluviðmið verður tvíþætt. Annars vegar útgjaldaviðmið til lengri tíma og hins vegar til skemmri tíma. Einnig verður gerður samanburður við lágtekjumörk Evrópusambandsins.

Fyrirhugað er að neysluviðmið geti þjónað því hlutverki að vera grunnur að vinnu við skilgreiningu neysluviðmiðs umboðsmanns skuldara og einnig að það verði grunnur að vinnu við gerð lágmarksframfærsluviðmiðs sem ákveðið hefur verið að vinna að þegar neysluviðmið liggur fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu mun vinnu þessari við þróun neysluviðmiðs ljúka eins og ég sagði í næsta mánuði.

Loks er spurt: „Hefur efnahags- og viðskiptaráðherra uppfært kostnaðartölur við gerð og viðhald slíks neyslustaðals/neysluviðmiðs í samræmi við svör forsætisráðherra frá 12. ágúst 2009?“

Kostnaðartölur við gerð og viðhald neyslustaðals/neysluviðmiðs hafa ekki verið uppfærðar m.a. þar sem ákveðið var að fela félags- og tryggingamálaráðuneytinu að útfæra nýtt greiðsluviðmið á vettvangi velferðarvaktarinnar, eins og áður hefur komið fram hér, og er mér ekki kunnugt um að það liggi enn fyrir. En eins og ég segi, það er stefnt að því að þetta liggi fyrir í desembermánuði.