139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins.

129. mál
[17:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Það er margt til góðs í samgöngumálum á Íslandi. Ýmsar nýjar leiðir hafa verið opnaðar síðastliðnar vikur, afrakstur af miklu starfi undangenginna ára. Ég vísa þar í veginn yfir Lyngdalsheiði, Hófaskarðsleið, göngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, Héðinsfjarðargöng, og síðan Bolungarvíkurgöng sem taka af hina hættulegu Óshlíð.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þrátt fyrir hlýnandi veðurfar geta veður verið válynd á Íslandi og mönnum reynst erfitt að komast yfir í dreifbýlinu og mikilvægt er að snjómokstur sé í góðu lagi. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að á árinu sem er að líða var minna fjármagni varið til þessara mála en í fyrra. Þó færðum við tilkostnaðinn til þess sem var árið 2006, það var ekki verra en svo.

Samkvæmt því frumvarpi sem liggur fyrir og áætlunum Vegagerðarinnar á ekki að draga úr framlagi til snjómoksturs á komandi ári. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga verður 7,7% niðurskurður fjárveitinga til þjónustu við vegi milli áranna 2010 og 2011. Vegagerðin mun leitast við að láta niðurskurðinn bitna sem minnst á vetrarþjónustunni en ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir enn þá um samdrátt í þeirri þjónustu milli þessara ára, eins og ég gat um áðan.

Veðurfar ræður miklu um fjárþörfina og það er alls ekki útilokað að draga þurfi úr vetrarþjónustu, ég vil að það sé sagt þrátt fyrir góðan ásetning, á umferðarminni vegum þegar líða tekur á veturinn verði hann harður. Að öðru leyti verður niðurskurðinum mætt með hagræðingaraðgerðum og samdrætti í sumarþjónustu.

Svarið er því á þennan veg: Það er verið að draga úr framlaginu um 7,7% á milli áranna 2010 og 2011 en reynt verður að búa svo um hnútana að það bitni ekki á snjómokstri.