139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins.

129. mál
[17:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna sem er mjög mikilvæg. Hæstv. ráðherra svaraði því þannig að það ætti að láta sem minnst bitna á vetrarþjónustunni. Ég fagna því, en það er samt gert ráð fyrir 7,7% minnkun á framlögum til þjónustunnar. Það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti svarað því frekar hvar það kæmi þá harðar niður ef ekki á snjómokstrinum.

Bara til að rifja það upp, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti réttilega á, hafa margir sveitarstjórnarmenn og íbúar í mörgum landshlutum miklar áhyggjur af því hve mikið er búið að skerða vetrarþjónustu og líka almennt viðhald og þjónustu vega. Til að nefna dæmi var á sunnanverðum Vestfjörðum ekki gert ráð fyrir því að Breiðafjarðarferjan Baldur sigldi á laugardögum, ekki er flogið til Bíldudals á laugardögum og ekki mokaður snjór á laugardögum. Menn sjá alveg að áhyggjur íbúanna eru réttmætar.

Ég hvet hæstv. ráðherra að taka tillit til þessa vegna þess að það er búið að taka mjög mikið af framkvæmdafé Vegagerðarinnar, bæði til nýframkvæmda og eins viðhalds. Ég held að við séum algerlega (Forseti hringir.) komin að þolmörkum hvað það varðar.