139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins.

129. mál
[17:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að samgöngunefnd fari í saumana á því sem er að gerast í samgöngumálum almennt því að stigin hafa verið risastór framfaraspor á undanförnum árum. Þau framfaraspor hafa átt sér langan aðdraganda og margir komið þar að. Við skulum ekki vanmeta það sem vel hefur verið gert, hve miklu máli það skiptir að fá Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, að fá veginn um Hófaskarð sem stórbætir samgöngur á milli Raufarhafnar, Kópaskers og Þórshafnar og svo við Akureyrarsvæðið. Þetta eru mjög mikilvægar samgöngubætur. Við hljótum að skoða málin í því ljósi líka þegar við tölum um torleiði í dreifbýli.

Spurt er hvernig eigi að hagræða. Jú, reynt verður að draga úr viðhaldskostnaði veganna. Við skulum ekkert blekkja okkur á því að það er verið að draga saman, það er verið að draga úr kostnaði, það er verið að skera niður, það er staðreynd. Á móti skulum við horfa til þeirra stórstígu framfara sem hafa orðið með þeim vegabótum sem hafa komist í gagnið núna á umliðnum vikum og skipta dreifbýlið og okkur öll að sjálfsögðu mjög miklu máli.